141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá upprifjun sem hefur komið hér fram um ályktanir framsóknarmanna. Við höfum árum saman ítrekað ályktað um mikilvægi auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Þess vegna eru það okkur mikil vonbrigði að sjá forustumenn stjórnarflokkanna og fylgitungla þeirra leggja til að reyna ekki á þessu þingi að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. (ÁI: … auðlinda…)

Það sem við leggjum til er nákvæmlega það sama og þingflokkur framsóknarmanna hefur í tvígang lagt fram sem sérstakt frumvarp á Alþingi.

Það sem ég vildi hins vegar ræða hér er það sem skiptir okkur hvað mestu máli, atvinnusköpun. Við megum kannski þakka fyrir að ekki sé kosið sjaldnar en á fjögurra ára fresti því að það virðist þurfa kosningar til að minna Vinstri græna á að atvinna skiptir máli á Íslandi. Nú loksins er komin smáglæta eins og við sáum á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Loksins, loksins á að gera eitthvað með uppbyggingu í landi Bakka í Norðurþingi. Fram er komið fyrirtæki sem virðist vera þóknanlegt ríkisstjórninni og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ætlar að mæla fyrir frumvarpi um skattaívilnanir fyrir stóriðjuna. Þar er lagt til að fallið verði frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi fyrir þetta fyrirtæki.

Ég spyr: Hvað með meginþorra íslenskra fyrirtækja, litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru með að hámarki tíu starfsmenn? Hvað á að gera fyrir þau? Af hverju erum við ekki að tala um tryggingagjaldið og þann risakostnað sem tryggingagjald er fyrir þessi litlu fyrirtæki þar sem launakostnaður er kannski 80–90% af heildarkostnaðinum? Af hverju erum við ekki að ræða frumvarp um afnám (Forseti hringir.) stimpilgjalda fyrir heimilin?

Nei, hér sjáum við nákvæmlega hvernig forgangsröðin er hjá þessari ríkisstjórn.