141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Hvar eru þingmennirnir 33 sem samþykktu að setja stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvar er hugrekkið og dugurinn til að vera fylgin sér og tryggja að í það minnsta eitt af meginkosningamálum þeirra komist í höfn? Hvar er allt fólkið sem mætti og greiddi atkvæði um nýja stjórnarskrá? Þetta er fyrsta stjórnarskráin okkar þar sem öllum var boðið að taka þátt. Þetta ferli hefur fengið ítarlega umfjöllun og við gagnrýni hefur verið brugðist í þeirri útgáfu stjórnarskrár sem nú liggur fyrir þinginu og verið er að setja í tætara gleymskunnar. Svona tækifæri mun ekki bjóðast aftur nema fólk skilji að þessi svik fjórflokksins eru síendurtekið stef sem mun aldrei breytast nema með samstilltu átaki til að taka gerræðisleg völdin af valdhöfum.

Ég hélt að það væri hægt með þessari nýju stjórnarskrá, að þetta yrði hænufet í átt að þeim stjórnarháttum sem þessi nýja öld kallar á. Allt það sem átti að ráða bót á með nýrri stjórnarskrá — persónukjör, auðlindir til þjóðar, nýtt kosningakerfi, upplýsingaréttur 21. aldarinnar, réttur almennings til að leggja fram frumvörp og kalla á þjóðaratkvæðagreiðslur, lýðræðislegri breytingar á stjórnarskrá — allt þetta mun nú hverfa vegna þess að meiri hluti þingsins hefur ekki dug til að láta stjórnarskrána í lýðræðislegt ferli og gefa okkur kost á að greiða atkvæði um málið.

Gleymum því ekki að það verður aldrei hægt að semja við Sjálfstæðisflokkinn um málið. Þar á bæ finnst valdhöfum að þjóðin eigi ekki að skrifa nýja stjórnarskrá heldur þeir og þeirra sérfræðingar. Valdhafar Framsóknarflokksins eru sama sinnis. Þeir vilja krukka í málið að eigin geðþótta. Verst finnst mér að sjá kempurnar sem hafa staðið með nýrri stjórnarskrá innan stjórnarflokkanna falla í duftið og lúta vilja foringja sinna.

Gleymum svo ekki foringja Bjartrar framtíðar sem finnst óréttlæti gagnvart þeim þingmönnum sem verða nýir á næsta þingi að binda hendur þeirra með þessu plaggi, foringja sem samkvæmt öruggum heimildum lofaði að verja ríkisstjórnina vantrausti ef samþykkt yrði tillaga hans um tárvota hvarma á 70 ára afmæli lýðveldisins (Forseti hringir.) og þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá 2014.

Stóra spurningin er: Hvaða stjórnarskrá (Forseti hringir.) verður í boði 2013?