141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir alveg ágæta ræðu sem nánast útskýrði allt sem þarf að skýra í þessu máli.

Það sem mig langar hins vegar að koma að er sú staða sem allir sjá í rauninni en enginn í stjórnarflokkunum virðist þora að taka af skarið með. Það er sú staða sem íslenskt atvinnulíf býr við í dag og að sjálfsögðu líka skuldastaða íslenskra heimila.

Það er alveg ljóst að það er mikið af tækifærum í íslensku atvinnulífi en það þarf einfaldlega að nýta þau og skapa umhverfi til að það sé hægt. Þar hafa stjórnarflokkarnir gersamlega brugðist allt þetta kjörtímabil. Hér hefur tryggingagjaldið verið nefnt og það er einn af þeim þáttum sem þarf klárlega að skoða, ekki síst út af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við þurfum líka að fara í það og við hljótum að spyrja stjórnvöld hvort ekki sé til hagsbóta fyrir þjóðina ef kerfið sem íslensk fyrirtæki búa við sé einfaldað að miklu leyti þannig að fyrirtækin hafi vissu og framtíðarsýn, þau geti fjölgað störfum og búið til betri störf eins og þau vilja gera og var yfirskrift fundar Samtaka atvinnulífsins í gær. Við hljótum að þurfa að búa til hvata til að fjölga störfum, ekki að draga úr.

Annað sem við þurfum líka að horfa á er að víða eru sóknarfæri í nýsköpum í hefðbundnum atvinnugreinum á Íslandi. Við höfum séð það í sjávarútveginum, við höfum séð það í iðnaðinum og í landbúnaðinum og við getum gert heilmikið til að búa til umhverfi fyrir þær greinar þannig að þær geti sett mikinn kraft í nýsköpun og framþróun. Og að sjálfsögðu allar nýju atvinnugreinarnar sem eru að spretta upp. En hér þarf samstillt átak. Það er ekki hægt að gera þetta með því að fara með hnefann á lofti í báðar áttir, hvort sem það er úr atvinnulífinu eða frá ríkisvaldinu, þegar menn þurfa að standa saman og horfa til framtíðar. Það þarf að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að setjast niður og eiga samtal við atvinnulífið, ræða við alla aðila vinnumarkaðarins um það hvernig horfa megi til framtíðar. Það hefur ekki verið gert (Forseti hringir.) og þar hafa stjórnvöld gersamlega brugðist allt þetta kjörtímabil.