141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að koma hingað til að ræða möguleikana á uppbyggingu í íslensku atvinnulífi en rétt eina ferðina enn, eins og því miður hefur allt of oft gerst á kjörtímabilinu, eru menn settir í þá stöðu að verða að svara einhverjum þvættingi, einhverjum lygum og tilraunum til að afvegaleiða pólitíska umræðu. (Gripið fram í.) Hvers vegna getum við ekki átt hér eðlilega rökræðu? Af hverju stöndum við nú frammi fyrir því, einum eða tveimur dögum eftir að forustumenn stjórnarflokkanna boðuðu það að taka ætti upp ný vinnubrögð og sátt og ræða málin á opinn og lausnamiðaðan hátt, að öfgafyllstu af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og nú þeir — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota um hv. þingmenn Samfylkingarinnar, það á raunar ekki eitt orð við þá sem hafa talað hér í dag. (Gripið fram í.) Ég vil sérstaklega taka fram að hv. þm. Magnús Orri Schram hefur eina ferðina enn valdið mér vonbrigðum. Það er eitthvað við hv. þingmann sem veldur því að mann langar svo til að hafa trú á honum en aftur og aftur veldur hann manni vonbrigðum með því að elta einhvern vitleysisöfgamálflutning. [Frammíköll í sal.] Það er hins vegar langt síðan hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Mósesdóttir hættu að valda mér vonbrigðum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Gefið ræðumanni hljóð.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn koma hér og fullyrða eitthvað um það sem framsóknarmenn hafi lagt fram sem er ekki aðeins ósatt, ekki aðeins fullkomlega ósatt (ÁI: Er búið að leiðrétta það sem var í gær?) heldur fullkominn viðsnúningur á því sem framsóknarmenn lögðu til. (ÁI: Er búið að leiðrétta …) Það var ekki einu sinni haft fyrir því að lesa tillögugreinina vegna þess að hér hefur hver þingmaðurinn eftir annan (Gripið fram í.) komið upp í ræðustól og farið með rangt mál. (Gripið fram í.) — Getur virðulegur forseti beðið hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að gefa mér smáfrið? Hv. þingmaður getur ekki þagað á meðan menn ræða mál úr ræðustól. (Gripið fram í: Þolir ekki sannleikann.) Þolir ekki sannleikann, nei.

Í tillögu framsóknarmanna er sérstök áhersla lögð á að nýting skapi ekki eignarrétt (Forseti hringir.) og það er í samræmi við tilraun auðlindanefndarinnar, þar sem sátu fulltrúar allra flokka og helstu sérfræðinga málsins, þar sem sat fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins (Forseti hringir.) og fyrsti formaður Samfylkingarinnar, þar sem allir flokkar náðu saman um orðalag til að tryggja einmitt rétt þjóðarinnar og að jafnvel þótt menn fengju nýtingarrétt skapaði það einungis … (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þér verðið að gefa mér tíma til að vinna upp þann tíma sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafði af mér. (Gripið fram í: Engar sérreglur.) (Forseti hringir.) Menn leyfa sér að fara með hrein ósannindi og það er því miður til marks um það hvernig stjórnarliðar hafa haldið á málum á þessu (Forseti hringir.) kjörtímabili og það er ástæðan fyrir því að þeir eru algerlega strand með öll sín mál. (Gripið fram í: Rétt.)