141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hafi einhver efast um að stjórnarskrármálið væri komið í strand og í fullkomnar ógöngur hafa umræðurnar í morgun fært okkur heim sanninn um það. Jafnvel þeir sem stóðu að frumvarpinu í upphafi eru komnir í hár saman og rífast um hvort leið ríkisstjórnarinnar núna sé skynsamleg eða óskynsamleg.

Við sjálfstæðismenn lögðum til strax í upphafi að við reyndum að ná saman um tiltekin atriði sem breyta þyrfti í gildandi stjórnarskrá og nefndum auðlindaákvæðið í því sambandi. Nú segja menn: Hvað hafa sjálfstæðismenn lagt á borð með sér í þeim efnum? Við höfum t.d. vísað í auðlindaákvæðið eins og auðlindanefndin frá árinu 2000 gekk frá því máli. Sú nefnd var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem þá áttu seturétt á Alþingi. Við höfum vísað í frumvarp hæstvirtra þáverandi ráðherra, Jóns Sigurðssonar og Geirs H. Haardes, sem lagt var fram árið 2007. Einnig má nefna að í sáttanefndinni svokölluðu um fiskveiðistjórnarmálin var ég formaður starfshóps sem fór sérstaklega yfir þessi mál. Við komumst að sameiginlegri niðurstöðu og vísuðum þar sérstaklega í ákvæði varðandi auðlindanefndina. Sáttanefndin var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Það er því ekki þannig að við komum hér að hreinu borði, við vitum að við getum byggt á mikilli vinnu sem þegar hefur farið fram og á vinnu sem stjórnmálaflokkarnir, bæði árið 2000 og núna, hafa sammælst um. Á það var ekki hlustað, menn ákváðu að vaða áfram og nú sjáum við afraksturinn. Málið er í fullkomnum ógöngum. Við nýttum tímann mjög illa, við hefðum getað nýtt hann miklu betur til þess að taka á málum sem skipta þjóðina mestu, atvinnumálin og skuldamál heimilanna. Það hefur ekki verið gert. Ríkisstjórnin hefur haft þar endalaus tækifæri og það er ekki eins og hún hafi ekki getað nýtt þau, hún hefur ekki viljað nýta þau vegna þess að henni hefur staðið á sama um atvinnulega uppbyggingu. Ríkisstjórnin hefur skilað auðu (Forseti hringir.) þegar kemur að skuldamálum heimilanna.