141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á almannatryggingalögum nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007, og þau sameinuð í ein lög þar sem kveðið er á um lífeyrisréttindi og félagslegan stuðning vegna sérstakra aðstæðna. Er því lagt til að heiti laganna verði: Lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Meginmarkmið með frumvarpinu er að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu, meðal annars með því að gera lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og tengdar greiðslur einfaldari og skýrari en það fyrirkomulag almenna lífeyristryggingakerfisins er sem búið er við í dag.

Frumvarpið byggist að mörgu leyti á ákvæðum gildandi laga auk þess sem höfð er hliðsjón af tillögum verkefnisstjórnar frá árinu 2009 og starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga frá október 2012 hvað varðar greiðslur til ellilífeyrisþega. Ekki liggja enn fyrir tillögur frá starfshópi um endurskoðun almannatryggingalaganna hvað varðar upptöku mats á starfsgetu í stað örorkumats og bótakerfis því tengt. Því eru ekki lagðar til viðamiklar breytingar á þeim köflum laganna að þessu sinni. Með breyttri og skýrari framsetningu er þó með frumvarpinu lagður grundvöllur að næstu skrefum í endurskoðun þeirra.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að kveða skýrt á um réttindi og skyldur hinna tryggðu, sem og málsmeðferð og stjórnsýslu. Með einföldun löggjafarinnar er þannig stefnt að því að draga úr margvíslegum annmörkum við framkvæmdina og að lífeyristryggingakerfi almannatrygginga verði gagnsærra fyrir notendur. Þá er markmið lífeyristrygginga skýrt nánar og öll uppbygging og framsetning gerð einfaldari og skýrari en í gildandi lögum.

Eins og áður segir er gert ráð fyrir að lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, verði felld úr gildi og ákvæði þeirra laga um greiðslur sem teljast til félagslegrar aðstoðar eða bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, verði færð í sérstakan kafla í nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga með nauðsynlegum breytingum eftir atvikum. Með því móti er gert ráð fyrir heildarlöggjöf um lífeyrisréttindi almannatrygginga og um stuðning vegna sérstakra aðstæðna sem komi til viðbótar lífeyrisgreiðslum í sérstökum tilvikum. Þannig er meðal annars talið að ná megi markmiðum um einfaldari og skýrari reglur fyrir notandann og gagnsærra kerfi.

Sá kafli gildandi almannatryggingalaga sem fjallar um slysatryggingar verður fluttur í sérstök lög um slysatryggingar almannatrygginga, verði frumvarp þetta að lögum, líkt og gert var þegar sérstök lög nr. 112/2008 voru sett um sjúkratryggingar. Samhliða frumvarpi þessu er því lagt fram annað frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Þar af leiðandi er IV. kafli gildandi almannatryggingalaga sem fjallar um slysatryggingar ekki hluti af frumvarpi þessu, en það frumvarp verður á dagskrá á eftir þessu máli sem nú er rætt um.

Hæstv. forseti. Framtíð velferðarsamfélagsins hefur mikið verið til umræðu að undanförnu. Velferðarsamfélög eins og þau hafa þróast til dæmis á Norðurlöndunum eru fyrir alla og almannatryggingar eru hluti af öryggisneti allra sem búa í samfélaginu. Það er óumdeild staðreynd að óvíða er velmegun meiri en einmitt í þeim samfélögum sem búa við þróaða velferð og jöfnuð. Eitt stærsta viðfangsefni sem nú blasir við vestrænum samfélögum er ört hækkandi meðalaldur íbúanna. Áætlað er að hann hækki um sex til sjö ár í Evrópu til ársins 2050 og að á Íslandi verði ævilíkur þá 87–88 ár. Staða Íslendinga hvað þetta varðar er þó um margt mjög góð, einkum vegna tiltölulega trausts lífeyrissjóðakerfis og mikillar atvinnuþátttöku eldri borgara.

Lengi hefur verið kallað eftir heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar. Óánægja er með núgildandi kerfi, reglur eru flóknar og mismunandi tekjutengingar og frítekjumörk í gildi gagnvart mismunandi bótaflokkum. Kerfið er flókið í framkvæmd, erfitt er að breyta lögum eða reglum um einstaka bótaflokka vegna innri tenginga milli mismunandi þátta og bótaflokka. Reynslan sýnir að flækjustigið eykst sífellt eftir því sem reynt er að breyta lögum og reglum til að koma til móts við kröfur ýmissa hagsmunaaðila eða nýjar þarfir sem koma upp í þjóðfélaginu.

Almannatryggingar hafa tekið miklum breytingum síðustu áratugi og verða sífellt veigameiri þáttur í uppbyggingu velferðarsamfélagsins á Íslandi. Aftur á móti hefur skort í löggjöfina skýr markmið um tilgang og þróun almannatrygginga og einstakar tegundir greiðslna. Það er því mjög tímabært að endurskoða allt kerfið. Það eru þó ekki eingöngu hinar efnislegu breytingar sem hér eru lagðar til sem skipta máli fyrir framtíð lífeyristrygginga á Íslandi, auknar kröfur eru í samfélaginu um gagnsæi, skilvirkni og einfaldari og skýrari lagatexta. Þetta er einnig stutt með áliti umboðsmanns Alþingis og úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga á ýmsum málum sem gefa ærna ástæðu til að breyta og skýra ýmis lagaákvæði frekar.

Heildarendurskoðun almannatryggingalaganna hefur staðið lengi yfir og má segja að verkefnið hafi hafist 1. október 2007 þegar þáverandi félagsmálaráðherra skipaði verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga í tengslum við flutning málefna aldraðra og almannatrygginga frá heilbrigðisráðuneyti til nýs félags- og tryggingamálaráðuneytis en það var 1. janúar 2008.

Verkefnisstjórnin skilaði tillögum í lok nóvember 2007. Þeim var flestum hrundið í framkvæmd með lagabreytingum árið 2008 sem fólu í sér gríðarlegar réttarbætur til handa elli- og örorkulífeyrisþegum, réttarbætur sem við búum enn að. Má nefna afnám skerðingar lífeyris vegna tekna maka, innleiðingu frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega, hækkun á frítekjumarki vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna öryrkja og að úttekt séreignarsparnaðar hafði ekki lengur áhrif á greiðslur almannatrygginga og þá var aldurstengd örorkuuppbót hækkuð og einnig frítekjumark gagnvart fjármagnstekjum.

Í kjölfar þessara breytinga hóf verkefnisstjórnin endurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að leiðarljósi að einfalda kerfið og lagði fram tillögur árið 2009 sem fólu í sér meðal annars sameiningu bótaflokkanna grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar í einn lífeyrisflokk með lágmarksframfærslutryggingu.

Verkefnisstjórninni var einnig falið að gera tillögu um skipan lágmarksframfærslutryggingar fyrir lífeyrisþega og var það gert með reglugerð sem kom til framkvæmda 1. september 2008 en var lögfest 1. janúar 2010. Hefur lágmarksframfærslutryggingin verið hækkuð jafnt og þétt síðan til að tryggja tekjulágum og tekjulausum lífeyrisþegum ákveðna lágmarksfjárhæð þeim til framfærslu í hverjum mánuði. Er óhætt að fullyrða að þetta úrræði hafi komið sér vel í efnahagsþrengingunum sem dundu yfir íslenska þjóðfélagið haustið 2008 og því hefur verið mikið beitt til að bæta kjör þeirra lífeyrisþega sem lökust hafa kjörin.

Hæstv. forseti. Í framhaldi af starfi verkefnisstjórnarinnar skipaði ég starfshóp í apríl 2011 til að vinna að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar og ljúka við frumvarp til laga um lífeyristryggingar með einfaldari og skýrari löggjöf að leiðarljósi. Endurskoðunin skyldi fara fram á grundvelli núverandi tveggja stoða tryggingakerfis, þar sem einstaklingar á vinnumarkaði safna réttindum með greiðslu í lífeyrissjóðakerfi en almannatryggingar veiti til viðbótar lágmarkstryggingavernd þeim sem á þurfa að halda.

Það er mikilvægt að undirstrika að stefnan er og hefur ætíð verið að halda því kerfi sem hér hefur verið byggt upp en endurskoða það og gera úrbætur á almennu tryggingastoðinni. Í þeim starfshópi sem skipaður var í apríl 2011, og Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður hefur stýrt, eiga sæti fulltrúar fimm stjórnmálaflokka auk aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka eldri borgara og öryrkja. Starfshópurinn er því bæði þverfaglegur og þverpólitískur og í honum hefur náðst víðtæk samstaða.

Starfshópurinn samþykkti tillögu um einföldun bótakerfis vegna ellilífeyris í júní á síðasta ári. Í greinargerð með henni er farið yfir niðurstöðuna, áhrif á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga og áhrifin á ólíka hópa ellilífeyrisþega. Þar er einnig fjallað um kostnað við tillöguna, nauðsynlegar lagabreytingar og afleiðingar þess að haldið verði áfram með óbreytt kerfi.

Hæstv. forseti. Starfshópurinn leggur til að í fyrsta áfanga verði bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót sameinaðir í einn bótaflokk sem kallist ellilífeyrir. Fjárhæð ellilífeyris verði 155.000 kr. á mánuði miðað við gildandi fjárhæðir bóta á árinu 2012 og 45% tekna lífeyrisþega hafi áhrif á fjárhæð hans. Þessi fjárhæð er nú 161.045 kr. á mánuði eftir að bætur almannatrygginga hækkuðu um 3,9% um síðustu áramót. Þá er lagt til að í fyrsta áfanga, þ.e. við gildistöku laganna, muni lækkun framfærsluuppbótar vegna tekna fara úr 100% í 80%. Þetta hlutfall verði síðan lækkað í áföngum þannig að 1. janúar 2014 muni 70% tekna lífeyrisþega hafa áhrif á útreikning uppbótarinnar, hlutfallið lækki síðan í 60% 1. janúar 2015, fari í 50% 1. janúar 2016 og að framfærsluuppbótin sameinist síðan ellilífeyrinum 1. janúar 2017 þegar 45% markinu verði náð og þá standi einn bótaflokkur eftir, ellilífeyrir.

Með þessari sameiningu í einn bótaflokk munu allar tegundir tekna hafa sömu áhrif á útreikning ellilífeyris almannatrygginga og engin frítekjumörk verða í gildi. Hér er því lögð til gríðarleg einföldun kerfisins sem næst með sameiningu bótaflokkanna, afnámi frítekjumarka og þó sérstaklega því að sömu reglur gildi um meðferð allra tekjutegunda. Gert er ráð fyrir að sú regla verði óbreytt fyrst um sinn að séreignarsparnaður hafi ekki áhrif á útreikning ellilífeyris en stefnt er að því að viðbótarlífeyrissparnaður verði gerður jafnsettur öðrum sparnaði þannig að stofn til lækkunar greiðslna verði aðeins fjármagnstekjur af sparnaðinum, ekki úttekt hans. Sameining bótaflokkanna gerir kerfið mun skýrara og skiljanlegra, það dregur úr flóknum útreikningum Tryggingastofnunar og hættu á of- eða vangreiðslum bóta. Niðurfelling frítekjumarka einfaldar kerfið enn meira. Sú breyting mun gera kerfið réttlátara og koma í veg fyrir að lífeyrisþegum með sömu heildartekjur sé mismunað líkt og nú er gert og leiðir af því að tekjurnar hafi mismunandi áhrif á útreikning bótanna eftir því hver uppruni teknanna er.

Má því með nokkrum rétti tala um tímamót í almannatryggingum hvað einföldun og gagnsæi varðar þar sem eldri borgarar munu eftir breytinguna geta reiknað út réttindi sín hjá Tryggingastofnun miðað við heildartekjur sínar á hverjum tíma með einföldum hætti.

Hæstv. forseti. Verði frumvarp þetta að lögum mun það hafa mjög jákvæð áhrif á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Lífeyrissjóðstekjur hafa í dag áhrif á fjárhæðir allra bótaflokka almannatrygginga en með mjög mismunandi hætti. Nú eru skerðingarhlutföll mismunandi eftir því um hvaða bótaflokk almannatrygginga er að ræða og eins eru frítekjumörk mishá. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðslur úr lögbundnum lífeyrissjóðum hafi áfram áhrif á greiðslur almannatrygginga en með mun einfaldari hætti en nú er. Einn mikilvægasti þátturinn snýr að lækkun þess hlutfalls tekna sem hefur áhrif á útreikning framfærsluuppbótar til tekjulágra og tekjulausra ellilífeyrisþega.

Því hefur verið haldið fram að stjórnvöld hafi gengið of langt í að lækka greiðslur frá almannatryggingum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, sérstaklega varðandi hina miklu lækkun framfærsluuppbótarinnar eins og áður sagði, sem nú er 100% gagnvart öllum tekjum. Þetta þýðir að hver króna sem viðkomandi fær í tekjur, hvort sem það eru atvinnu-, fjármagns- eða lífeyrissjóðstekjur lækka á móti greiðslum hans í almannatryggingum, þannig að það er króna á móti krónu í skerðingu, enda var lágmarksframfærslutryggingin sett til þess að tryggja ákveðna afkomu og þá var það þannig að ef fólk hafði aðrar tekjur fékk það ekki greidda þessa sérstöku framfærslu.

Þetta getur valdið því að lífeyrisþegar sjá lítinn sem engan ávinning af þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér með áratugagreiðslu iðgjalda í lífeyrissjóðum lögum samkvæmt. Það verður því að teljast réttlátt að einstaklingur sem verið hefur á vinnumarkaði nái að tryggja sér betri lífeyrisréttindi með greiðslum í lífeyrissjóð en þeir sem hafa verið utan vinnumarkaðar og heldur en þeir njóta þá úr almannatryggingunum.

Í frumvarpinu er brugðist við þessu vandamáli þannig að dregið verður í áföngum úr lækkun framfærsluuppbótarinnar vegna tekna lífeyrisþega. Mér þykir það jafnframt mikið réttlætismál að öryrkjar njóti einnig góðs af þeirri breytingu og að útreikningur framfærsluuppbótar til þeirra fylgi sömu reglum og hjá ellilífeyrisþegum og þannig er það í frumvarpinu.

Ég vil þó minna á upphaflegan tilgang framfærsluuppbótarinnar sem var og er enn að tryggja tekjulágum og tekjulausum lífeyrisþegum ákveðna lágmarksfjárhæð til framfærslu í hverjum mánuði. Hér er því um nokkurs konar lágmarksviðmið að ræða þar sem eingöngu lífeyrisþegar sem á þurfa að halda fá greidda viðbót vegna lágra eða engra tekna. Þeir sem aftur á móti hafa aðrar tekjur en bætur almannatrygginga sér til framfærslu fá ekki þessa uppbót. Það er því mikilvægt að viðhalda ákveðinni lágmarksvernd í því frumvarpi sem nú liggur fyrir en á sama tíma að stuðla að því að fólk sjái ávinning af því að afla sér tekna.

Reikna má með því að þegar dregið verður í áföngum úr lækkun framfærsluuppbótar vegna meðal annars lífeyrissjóðstekna muni það hafa víðtæk og jákvæð áhrif, einkum á viðhorf almennings til hins lögbundna lífeyrissjóðakerfis. Bent skal á að greiðsla lífeyris úr lífeyrissjóðum hefur í för með sér beinan ávinning og dregur úr útgjöldum ríkissjóðs til almannatrygginga á móti til langs tíma. Er það til þess fallið að auka og styrkja vægi lífeyrissjóðanna sem ætlað er að taka æ stærri þátt í greiðslum ellilífeyris og koma í veg fyrir að framfærslubyrði stækkandi hóps aldraðra leggist af fullum þunga á yngri og fámennari kynslóðir skattgreiðenda.

Tekið skal fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til munu í langflestum tilfellum leiða til aukinna réttinda ellilífeyrisþega. Engu að síður þykir rétt að fyrirbyggja skerðingar vegna hugsanlegra ófyrirséðra áhrifa þessara breytinga á hag einstakra ellilífeyrisþega. Það verður sem sagt hægt að tryggja það að enginn verði fyrir skerðingum með sérstöku sólarlagsákvæði þess efnis sem gildir til ársloka 2015. Gerður verður samanburður á útreikningi ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir gildistöku nýrra laga og hins sameinaða ellilífeyris eftir gildistöku laganna. Komi til þess að sá samanburður leiði til hærri greiðslna einstaklings samkvæmt eldri lögum greiðast hærri bæturnar á tímabilinu. Þetta þýðir að enginn lífeyrisþegi mun tapa á breytingunum út árið 2015.

Hæstv. forseti. Sú leið sem lögð er til hefur óneitanlega í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð enda vandséð hvernig hægt á að vera að auka réttindi ellilífeyrisþega jafnmikið og raun ber vitni án þess að það hafi í för með sér aukin útgjöld ríkisins. Í tillögu starfshópsins er gerð grein fyrir árlegum kostnaði vegna tillögunnar á árunum 2013–2017 og er um þríþættan kostnaðarauka að ræða. Það er vegna sameiningar bótaflokkanna, það er vegna lækkunar á skerðingarhlutfalli framfærsluuppbótar og það er vegna samanburðar við eldri reglur. Kostnaður vegna sameiningar bótaflokkanna kemur fram strax á árinu 2013 og helst óbreyttur allan tímann ef miðað er við núverandi fjölda ellilífeyrisþega og núverandi tekjur þeirra.

Það er aftur á móti sá kostnaður sem hlýst af því að lækka skerðingarhlutfall framfærsluuppbótarinnar sem hækkar ár frá ári, sérstaklega á árunum 2016 og 2017. Hér verður þó að taka tillit til þegar áformaðrar útgjaldaaukningar til málaflokksins ef lögin standa áfram óbreytt, því samkvæmt gildandi lögum mun skerðingarhlutfall vegna tekjutryggingar lækka aftur úr 45% í 38,35% og skerðingarhlutfall heimilisuppbótar lækkar með sambærilegum hætti frá 1. janúar 2014. Þetta er í samræmi við bráðabirgðaákvæði gildandi laga. Áætlað er að þær breytingar einar muni auka útgjöld ríkissjóðs um 2,3 milljarða í upphafi næsta árs eða á næsta ári.

Að auki mun samkomulag stjórnvalda við lífeyrissjóðina frá því í desember 2010, sem meðal annars felur í sér hækkun frítekjumarks á tekjutryggingu ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna, koma til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2013–2015. Fyrsti áfangi þess samkomulags kom reyndar þegar til framkvæmda um síðustu áramót þegar frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega hækkaði úr 10 þús. kr. í 15.800 kr., eða um 58%. Áætlað er að breytingin í heild auki útgjöld ríkissjóðs um 2,3 milljarða á næstu þremur árum. Því er ljóst að verði ekki hrundið í framkvæmd þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu þarf ríkissjóður samt sem áður að auka framlög til núgildandi kerfis.

Einnig verður að hafa í huga að nýir árgangar ellilífeyrisþega hafa áunnið sér meiri lífeyrissjóðsréttindi en þeir sem falla frá vegna aldurs ár hvert og því mun draga verulega úr heildargreiðslum nýrra árganga frá almannatryggingum sem dregur aftur úr útgjöldum ríkisins. Þetta er í samræmi við það sem að var stefnt með lífeyrissjóðakerfinu þegar því var komið á fót. Þar sýndu menn mikla framsýni. Lífeyrissjóðirnir standa nú þegar undir stórum hluta af ellilífeyri landsmanna og á það hlutfall eftir að hækka mjög hratt á næstu árum þegar fjölmennir árgangar, sem hafa auk þess greitt í lífeyrissjóði alla starfsævi sína, hefja töku lífeyris eftir árið 2020. Aukið vægi lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega framtíðarinnar mun því draga úr útgjöldum ríkisins vegna málaflokksins til lengri tíma.

Hvað sem þessu líður er ljóst að verði frumvarpið að lögum mun það fela í sér umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera. Ég reikna með því að í meðförum þingsins verði farið yfir það hvort ástæða sé til að aðlaga þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu betur að langtímaáætlunum ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum, og þá með hvaða hætti rétt sé að gera það til að unnt verði að standa undir þeim auknu framlögum til almannatryggingakerfisins sem ætlað er að leiði af ákvæðum frumvarpsins, en um leið að tryggja að lífeyrisþegar fái til baka þær skerðingar sem hafa orðið eftir hrunið.

Hæstv. forseti. Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir er byggt á tillögum starfshópsins hvað varðar bætur til ellilífeyrisþega. Endurskoðun almannalífeyristryggingakerfisins er þó hvergi nærri lokið. Starfshópurinn er enn að störfum og mun nú hefja vinnu við endurskoðun þess kafla almannatryggingalaganna sem fjallar um bótakerfi almannatrygginga vegna örorku. Auk þess eru undirhópar sem munu halda áfram að vinna að endurskoðun tiltekinna þátta sem snúa að löggjöfinni svo sem fyrirkomulagi greiðslna til foreldra langveikra og fatlaðra barna, vegna fjölskyldubóta, sem oft eru nefndar barnatryggingar, vegna bifreiðamála hreyfihamlaðra og síðast en ekki síst undirbúnings fyrir innleiðingu starfsgetumats sem ætlað er að koma í stað núgildandi örorkumats. Er ætlunin sú að þegar tillögur starfshópsins um framangreinda þætti liggja fyrir verði lagt fram sérstakt frumvarp þar að lútandi. Þangað til verður stuðst við núgildandi örorkumat og gildandi reglur um bætur frá almannatryggingum ríkisins vegna örorku.

Þrátt fyrir þetta eru í frumvarpi því sem liggur fyrir lagðar til ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi örorkubóta sem taldar eru nauðsynlegar. Einkum eru breytingar er varða endurhæfingarlífeyrisgreiðslur, búsetuskilyrði og áhrif búsetu hér á landi gagnvart rétti til örorkubóta. Jafnframt er gert ráð fyrir að þær breytingar sem ég fjallaði um áðan og lúta að útreikningi framfærsluuppbótar fyrir ellilífeyrisþega gildi einnig um örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þannig að þeir njóti þegar þeirra kjarabóta sem þær breytingar fela í sér.

Í þeirri vinnu sem fram undan er þarf enn fremur að huga að sértækum lausnum fyrir einstaklinga með sérstakar þarfir, til dæmis þá sem búa við fötlun, þá sem hugsanlega hafa verið fatlaðir frá unga aldri, einstaklinga sem hafa aldrei verið á vinnumarkaði eða eru undir fátæktarmörkum af ýmsum ástæðum. Einnig þarf að taka tillit til allra aðstæðna og tekna þegar um greiðslur til framfærslu er að ræða, svo og útgjalda vegna sjúkdóma eða fötlunar þegar um greiðslur á móti sérstökum kostnaði er að ræða.

Hæstv. forseti. Ein veigamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að gildandi lög um félagslega aðstoð, lög nr. 99/2007, verða felld brott og ákvæði þeirra færð í einn kafla í lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Ákvæði um félagslegar greiðslur voru flutt í lög um félagslega aðstoð með gildistöku EES-samningsins árið 1994. Á þeim tæplega 20 árum sem liðin eru frá gildistöku EES-samningsins hafa annars vegar íslensk lög á þessu sviði breyst mikið, nýir bótaflokkar og greiðslur komið til sögunnar og skilyrði breyst. Hins vegar hefur almannatryggingareglugerð EES-samningsins tekið breytingum og ný reglugerð leyst eldri reglugerð af hólmi. Með hliðsjón af þessu er því talið tímabært og nauðsynlegt að yfirfara og greina á ný allar greiðslur samkvæmt gildandi almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð og flokka þær sem greiðslur félagslegrar aðstoðar, greiðslur almannatrygginga eða sem greiðslur sem beri einkenni hvors tveggja.

Þessi endurskoðun leiddi af sér þá tillögu sem felst í frumvarpinu, að sameina lög um félagslega aðstoð og lög um almannatryggingar í ein heildarlög, og að færa ákvæði um greiðslur sem flokka má sem félagslega aðstoð og ákvæði um greiðslur sem bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, í sérstakan kafla í nýju lögunum. Í þeim kafla eru enn fremur sett fram markmið og gildissvið með félagslegum stuðningi og kveðið skýrt á um það hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að heimilt sé að veita slíkan stuðning. Með því er lögð áhersla á að um félagslegan stuðning ríkisins er að ræða sem tekur mið af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum hér á landi. Almennt miðast stuðningur vegna sérstakra aðstæðna við að viðkomandi eigi lögheimili og sé einnig búsettur hér á landi, enda er það meginregla gildandi laga að bætur almannatrygginga eru ekki greiddar einstaklingum sem búsettir eru erlendis. Þó er heimilt að greiða slíkar bætur þeim sem búsettir eru í ríkjum sem Ísland hefur gert samning við um gagnkvæm réttindi til almannatrygginga að því tilskildu að samningurinn taki til viðkomandi einstaklings, tilviksins og þeirra greiðslna sem um ræðir. Er áfram gert ráð fyrir að þær greiðslur sem teljast til félagslegrar aðstoðar verði ekki greiddar úr landi.

Hæstv. forseti. Það eru ekki eingöngu efnislegar breytingar sem felast í frumvarpi þessu heldur er mikil áhersla lögð á skýrleika sem nokkuð þykir skorta á í gildandi lögum um almannatryggingar. Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um markmið, skilgreiningar og gildissvið laganna. Markmiðsákvæði hefur ekki áður verið sett í lög um almannatryggingar en talin er brýn þörf á því í jafnmikilvægri löggjöf. Í markmiðsákvæðinu er lögð áhersla á að það samræmist stjórnarskránni, einkum 76. gr., þar sem kveðið er á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Gildissviði frumvarpsins er skipt upp í efnislegt og persónulegt gildissvið. Efnislegt gildissvið er rýmra en í núgildandi lögum þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæði laga um félagslega aðstoð verði hluti nýrra laga, verði frumvarpið að lögum. Einnig er kveðið á um persónulegt gildissvið, þ.e. hvaða einstaklingar teljast tryggðir samkvæmt lögunum og ýmis sérákvæði um tryggingavernd.

Í frumvarpinu er einnig lögð áhersla á að allar reglur um málsmeðferð séu skýrar og stjórnsýslureglur í heiðri hafðar til að tryggja réttindi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. Að sama skapi er kveðið á um skyldur borgaranna í samskiptum sínum við stjórnvöld, til dæmis til að veita réttar upplýsingar um þær aðstæður sem haft geta áhrif á rétt þeirra til greiðslna úr almannatryggingum og eftir atvikum fjárhæð þeirra. Hér má meðal annars nefna ákvæði um leiðbeiningar og upplýsingaskyldu, rannsóknarreglu, reglur um eftirlit, meðferð persónuupplýsinga, þagnarskyldu og stjórnsýslukærur.

Lögbundnar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar eru auknar og aðgengi stofnunarinnar að nauðsynlegum upplýsingum sem liggja til grundvallar bótarétti er sömuleiðis aukið. Þá er gert ráð fyrir að stofnanir og fyrirtæki sem búa yfir upplýsingum sem geta haft áhrif á rétt til greiðslna eða fjárhæðir þeirra samkvæmt frumvarpinu skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna.

Nauðsynlegt er að flæði upplýsinga milli stofnana ríkisins sé sem skilvirkast þannig að unnt sé að stuðla að því að við ákvarðanatöku sé byggt á nýjustu upplýsingum hverju sinni og þannig tryggt að inntar séu af hendi réttar greiðslur til réttra aðila á réttum tíma. Með því er komið til móts við athugasemdir Ríkisendurskoðunar í nýútkominni skýrslu um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum. Er í þessu sambandi þó lögð á það áhersla að upplýsingar séu nægar og viðeigandi, ekkert umfram það sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja ákvæðum laganna. Þá eru í frumvarpinu settar fram skýrar reglur um skörun bóta, bæði hvað varðar greiðslur samkvæmt frumvarpinu og gagnvart greiðslum samkvæmt öðrum lögum, til dæmis sjúkradagpeningum og atvinnuleysisbótum.

Síðan er í frumvarpinu fjallað um að breytt verði í eftirágreiðslur og færð fyrir því þau rök að það sé í samræmi við launagreiðslur í dag og muni tryggja til lengri tíma að betri upplýsingar liggi fyrir um tekjur þegar ákvarðanir eru teknar. En þetta mun þó ekki breytast hjá þeim sem búa við fyrirframgreiðslur í dag, að því verði breytt, heldur er þessu breytt til framtíðar litið.

Í lokin má nefna ákvæði um eftirlitshlutverk Tryggingastofnunar. Eins og ég kom að áðan skiptir mjög miklu máli að rétt sé gefið því að stofnunin ráðstafar árlega stórum hluta fjárlaga og hefur því mikilvægu eftirlitshlutverki þar að gegna. Í frumvarpinu eru síðan breytingar varðandi stjórnun, yfirstjórn stofnunarinnar og ýmislegt í tengslum við það. Síðan er ákvæði um að ákvarðanir varðandi bætur skuli vera afgreiddar í fjárlögum á hverju ári. Það er breyting sem menn telja eðlilegri en að miða við einhverjar ákveðnar vísitölur þar sem hefur verið ágreiningur um túlkun á þeim ákvæðum. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnar að breyta þeim fjárhæðum ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga og þá er það gert með reglugerð innan ársins. Þetta er ákvæði hliðstætt því sem kveðið er á um í lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um fæðingar- og foreldraorlof og fleiri lögum.

Hæstv. forseti. Ljóst er að það mun taka talsverðan tíma að undirbúa breytingarnar af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og kynna þær almenningi, hagsmunasamtökum og öðrum sem málið varðar. Þó er lagt til að gildistaka frumvarpsins verði 1. júlí 2013, en þar sem undirbúningur vegna nýs greiðslufyrirkomulags, þar sem greiða á út bætur eftir á í stað fyrir fram, mun taka lengri tíma er lagt til að sú breyting taki gildi um næstu áramót.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að lokið verði við endurskoðun almannatryggingakerfisins með það að markmiði að gera það einfaldara og réttlátara og koma í veg fyrir víxlverkanir. Ég tel víst að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi séu sammála um þau markmið og vilji standa vörð um velferðarsamfélagið. Það ætti því að vera hafið yfir pólitísk átök að ná niðurstöðu um hina mikilvægu og tímabæru endurskoðun á almannatryggingalögunum á Alþingi. Og nú þarf að ná fram samningum um að ljúka frumvarpinu, ef ekki á núverandi þingi þá strax á vorþingi eða í allra síðasta lagi í september. Ég skora á alla starfandi stjórnmálaflokka á Alþingi að sameinast um að finna á þessu góða lausn.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar.