141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:06]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég brosi vegna þess að það er skammur tími til að svara spurningum og það er vísað til bráðabirgðaákvæðis V og ég var ekki með það í höndunum.

Fyrst varðandi umönnunarbæturnar þá sýnist mér, eftir að hafa borið það undir fólk sem hefur unnið að þessu máli, að ekki sé um að ræða breytingar hvað framkvæmdina varðar. Það er eingöngu verið að lögfesta það sem hefur verið praktíserað hingað til. Meginreglan er sú að lífeyrisþegi geti ekki sjálfur þegið umönnunarbætur og það er aðalatriðið. Varðandi það hvort aðrir úr fjölskyldunni geti sinnt umönnun eða fengið umönnunarbætur hefur því ekki verið breytt.

Varðandi kostnaðinn vegna bráðabirgðaákvæðis V og skerðingarákvæðin verð ég aðeins að geta mér til um það. Í raunveruleikanum eru öryrkjar látnir fylgja sömu reglum og ellilífeyrisþegar í þessu frumvarpi þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið í vinnunni með okkur og ýmis ákvæði þar séu ókláruð. Þar af leiðandi hafa þeir ýmis ákvæði betri en ellilífeyrisþegar og þau eru ekki felld niður heldur gilda áfram samkvæmt þessum lögum, og ég veit því ekki alveg hvað hv. þingmaður er að meina. Ákvæðið um 45% skerðingu fer í raunveruleikanum líka yfir á örorkulífeyrisþegana með svipuðum hætti og ellilífeyrisþegana, ef ég veit rétt.