141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að þetta mál skuli vera komið fram en lýsi jafnframt nokkrum áhyggjum af því að það skuli ekki hafa komið fram fyrr en ég hef heyrt skýringar hæstv. ráðherra á því og tek þær gildar. Ég var, eins og hv. þm. Pétur Blöndal, sem talaði hér áðan, í nefndinni sem kom að meginvinnunni, eða stórum hluta hennar skulum við segja, sem liggur að baki þessu frumvarpi og þekki það því ágætlega og þess meiri ástæða til að leggja einhverja vigt í það að maður sé þokkalega ánægður með afurðina.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna sérstaklega í sambandi við þetta frumvarp og byrja þá á 10. gr. þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni fjárhæð sem lágmarkslífeyri fyrir eldra fólk. Þar er talað um 45% skerðingu vegna tekna en eins og hæstv. ráðherra kom inn á gerir bráðabirgðaákvæði III það að verkum að skerðing, ef hægt er að tala um skerðingu á skerðinguna, kemur inn í þrepum. Það má endalaust deila um það hversu hratt það hefði átt að gerast en ég er tiltölulega ánægður með þá lendingu sem þarna er.

Það er eitt sem er mjög mikilvægt í þessu og það er að þarna er stigið það skref að reyna eftir föngum, eins og kemur fram í 11. gr., að gera allar tekjur jafngildar. Það er alveg gríðarlega mikilvæg skref, frú forseti, vegna þess að með því er verið að reyna að komast fram hjá því að menn geti aflað tekna með mismunandi hætti og náð þá utan um það þannig að lífeyriskerfið sé raunverulega fyrir þá sem þurfa á stuðningi vegna framfærslu að halda en aðrir séu þá ekki inni í því kerfi nema þá sem svarar einhverju tilteknu lágmarki.

Í 17. gr. frumvarpsins er komið inn á þrepaskiptingu eins og hún snýr að örorkulífeyrisþegum og ég hef raunar lengi haft þá skoðun að þessi þrepaskipting eins og þar kemur fram, þ.e. þar sem byrjað er með 100% uppbót vegna aldurstengdrar örorku milli 18 og 24 ára aldurs og síðan lækka þrepin um 5% á hverju ári eða nokkuð hratt skulum við segja fram til 40 ára aldurs — mér hefur lengi þótt að sú kúrfa sem þarna er teiknuð sé fullbrött og hvet hv. velferðarnefnd eindregið til að skoða það hvort þetta sé örugglega besta skiptingin.

Mig langar einnig að nefna nokkur praktísk atriði og eitt af þeim er í IV. kafla 31. gr. Þar þyrfti í raun að nefna sérstaklega annaðhvort að hvíldarinnlagnir og endurhæfingarinnlagnir séu undanþegnar niðurfellingu á lífeyrisgreiðslu; annaðhvort þyrfti að gera það sérstaklega í greininni eða taka fram að þannig ætti það að vera vegna þess að þær aðstæður eru svolítið sérstakar. Stundum er það þannig að þegar lífeyrisþegar koma til hvíldarinnlagnar og búa til að mynda með maka minnkar tekjuþörf heimilis ekki neitt og það þarf þá að geta þess sérstaklega að lífeyrisgreiðslur til þeirra falli ekki niður þrátt fyrir hvíldarinnlagnir.

Mig langar líka að benda á að á milli 37. gr. og 41. gr. sem báðar fjalla í raun um ráðstöfunartekjur einstaklinga sem búa inni á stofnunum eða hjúkrunarheimilum, milli þessara tveggja greina er ákveðið ósamræmi. Annars vegar er gert ráð fyrir því að greiðslur vegna dvalarkostnaðar hefjist ekki fyrr en tekjur viðkomandi séu komnar upp fyrir 75.500 kr. en á hinn bóginn ætlar lífeyriskerfið ekki að tryggja greiðslur til einstaklings nema upp að 49 þús. kr. hjá þeim sem ekki hafa neinar tekjur. Það kann einhverjum að þykja að þarna sé ekki mikill munur á en þarna er um umtalsverða upphæð að ræða. Þetta eru eitthvað um 25 þús. kr. á mánuði og geta skipt þessa einstaklinga töluverðu máli. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að skoða þetta sérstaklega.

Það er líka spurning í 38. gr. Þar eru undanskildir ákveðnir tekjuliðir sem á að meta með tilliti til 37. gr. og greiðslu vegna dvalarheimilis- eða hjúkrunarheimiliskostnaðar; það er spurning hvort þarna ætti ekki að tiltaka allar greiðslur.

Annað smáatriði, sem samt getur skipt umtalsverðu máli, varðar 39. gr. um innheimtu dvalarkostnaðar. Mér finnst persónulega að þarna inni ætti að vera einhvers konar heimild til dvalar- eða hjúkrunarheimilis að taka að sér alla umsýslu vegna þessara greiðslna. Til er fólk sem býr á stofnunum, sem hefur enga til að aðstoða sig eða hjálpa, á enga aðstandendur, og þeir einstaklingar eiga í mörgum tilfellum mjög erfitt með að sjá um þessa umsýslu sjálfir og því ætti að vera heimildarákvæði fyrir fólk að geta þegið þessa þjónustu.

Þá eru það að lokum þessi smáatriði, sem svo má kalla, sem mig langar að nefna. Það eru nokkur atriði í bráðabirgðaákvæðunum sem mig langar aðeins að impra á. Það er í fyrsta lagi bráðabirgðaákvæði I þar sem komið er inn á ákvæðin um útreikning lífeyris og tekjutryggingar. Þarna er í raun ákvæði sem á að tryggja að lífeyrisþegar beri ekki skarðan hlut frá borði vegna nýrra reiknireglna eingöngu. Þetta er afar mikilvægt. Á sama hátt er bráðabirgðaákvæði II, um þátttöku heimilismanns í greiðslu dvalarheimiliskostnaðar, mjög mikilvægt og ég er sammála þeirri aðferð sem þar er farin, þ.e. að miða við rétt rúm tvö ár fram í tímann hvað þetta varðar.

Eins og ég hef farið hér yfir þá eru sannarlega nokkur mál sem hv. velferðarnefnd þarf að fara yfir. Ég er, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal og raunar kom það fram í máli hæstv. ráðherra einnig, dálítið óhamingjusamur með hve frumvarpið kemur seint fram, hefði viljað fá þetta fram fyrr. Ég vona að hv. velferðarnefnd geti að minnsta kosti komist í gegnum málið að einhverju leyti og skilað nefndaráliti aftur hingað inn í þingið.