141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvarið. Ég átti eftir að nefna sérstaklega varðandi framfærsluuppbótina og hvort ekki hefði verið betra að skerða hana eins og hv. þingmaður kom inn á áðan. Ég held í rauninni að sú leið sem er farin hérna, að reyna frekar að einfalda kerfið með þessum nýja hætti, sé skynsamlegri.

Varðandi svo spurningu þingmannsins hvort eðlilegt sé að skattleggja þá sem hafa tiltölulega lág laun beinlínis til þess að borga síðan lífeyri í þeim tilgangi, eins og hv. þingmaður nefndi, að auka í einhverjum tilfellum ráðstöfunartekjur lífeyrisþega á kostnað hinna. Ég tel að þarna séum við einmitt komin að grundvallarspurningum í sambandi við það hvernig við hugsum samtryggingarkerfi okkar, að það sé ekkert óeðlilegt við það að þeir sem hafa lág laun borgi með einhverjum hætti í samtryggingarsjóði, borgi sem sagt skatta. Hins vegar hefur sú ríkisstjórn sem nú er við völd tryggt það að skatthlutfall þeirra sem eru með lægstu launin sé áberandi lægra en hinna sem meira hafa. Í því liggur grundvallarhugmyndafræðin sem ég og margir fleiri vinstri menn viljum að sé viðhöfð í samfélaginu, þ.e. að tryggt sé að þeir sem geta borið byrðarnar geri það en hinum sem minna hafa sé jafnframt gert kleift að taka þátt í samfélaginu með skattgreiðslum sem eru þá sannarlega lægri en þeir geti engu að síður notið þess að fá að leggja til samfélagsins og standa þannig með okkur hinum og öllu samfélaginu undir því að halda uppi velferðarkerfinu.