141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er mikil hátíðarstund hér í dag að mínu mati þegar loksins er komið að því að hæstv. velferðarráðherra mæli fyrir frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Hér er um að ræða heildarendurskoðun á þeim mikilvægu lagabálkum sem varða lífskjör eldri borgara og fólks með skerta starfsgetu í landinu. Bæði erum við að tala um miklar umbætur í tryggingakerfinu sjálfu en ekki síður miklu betri framsetningu á lögunum, þau verða skýrari og aðgengilegri. Það hefur einmitt verið vandinn með þessa löggjöf að mjög fáir hafa í raun og veru skilið út á hvað hún gekk því að hún var svo flókin og allar breytingar sem gerðar voru á henni gerðu hana enn ógegnsærri.

Þetta er ansi viðamikill lagabálkur, þetta eru 123 lagagreinar og það eru ein níu ákvæði til bráðabirgða. Það er því mikil vinna fram undan að fara yfir þetta plagg. Ég kem hingað upp og fagna því að geta með núverandi velferðarnefnd hafið þá vinnu. Ég hef átt þess kost að hafa fylgst með þessu frá árinu 2007 þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingin lagði ríka áherslu á endurskoðun almannatrygginga. Þá tók hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, við félagsmálaráðuneytinu sem varð um áramótin 2007/2008 félags- og tryggingamálaráðuneyti þegar sú mikla baráttukona fyrir kjörum alþýðunnar hér á landi tók við þeim málaflokki og fór í gríðarlega miklar og mikilvægar umbætur á honum. Í tíð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þetta hljómar einkennilega, herra forseti, sem hæstv. félagsmálaráðherra voru gerðar umtalsverðar umbætur á kerfinu. Afnumdar voru tengingar við tekjur maka sem um hafði gengið heill hæstaréttardómur, þó að þáverandi stjórn léti sér það í léttu rúmi liggja og gerði ekki nauðsynlegar breytingar, og þá var jafnframt innfærð framfærsluuppbót fyrir þá sem minnst höfðu handa á milli. Ég hef oft hugsað til þess eftir hrunið hvað sú framfærsluuppbót hefur skipt miklu máli því að við höfum svo sannarlega þurft að skera niður í þessu kerfi. Það voru kannski hin döpru örlög að ráðherrann sem hafði gert miklar umbætur á kerfinu lenti síðan í því að verða forsætisráðherra eftir hrunið og þurfti að skera niður í því mikilvæga kerfi, en það var óumflýjanlegt. Þá var mjög mikilvægt að hægt var að tryggja nauðsynlegar hækkanir á framfærsluuppbótinni til að verja kjör þeirra sem minnst höfðu handa á milli.

Nú erum við að fá einfaldara og gegnsærra kerfi. Það er verið að fækka bótaflokkum úr fjórum í tvo. Það er verið að breyta skerðingum þannig að það er sama hvaðan tekjur fólks koma, þær skerða ekki bæturnar með mismunandi hætti. Allt mun þetta verða til þess að fólk skilji kerfið betur og það verður sanngjarnara.

Þetta frumvarp er í raun afrakstur fjögurra ráðherra. Fyrst var það í höndum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þá var áfram unnið að því í ráðherratíð hæstv. núverandi forseta þingsins, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, sem er náttúrlega sá þingmaður sem við hlið hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hefur barist hvað mest fyrir umbótum á þessu kerfi. Síðan tók hv. þingmaður Árni Páll Árnason við og bar ábyrgð á þessari vinnu og hélt henni gangandi og að lokum núverandi hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson.

Að sjálfsögðu átti þessi vinna að ganga mun hraðar fyrir sig en hrun fjármálakerfisins og áhrif þess á ríkissjóð hafði að sjálfsögðu áhrif á vinnuna. Það er því sérstakt fagnaðarefni að við getum nú loks lagt fram þetta frumvarp og sýnt hvert við stefnum með þann mikilvæga málaflokk sem almannatryggingar eru. Fyrir jafnaðarmenn eru tvö megintæki til þess að byggja hér samfélag jafnra tækifæra og lífskjara, þ.e. skattkerfið og almannatryggingakerfið. Tekjuskattskerfið hefur verið tekið til gagngerra endurbóta með þrepaskiptingu og nú erum við að sýna þá leið sem við viljum varða með almannatryggingakerfið.

Herra forseti. Þá vil ég nota tækifærið og þakka þeim Stefáni Ólafssyni, Sigríði Lillý Baldursdóttur og Árna Gunnarssyni sem öll þrjú hafa á mismunandi tímum leitt þessa vinnu. Ég þakka þeim fyrir frábær störf því að lagabálkur sem þessi verður ekki settur saman nema með víðtæku samráði og miklum samstarfshæfileikum. Ég hlakka til þess sem fulltrúi í velferðarnefnd að hefja vinnu við þetta frumvarp.