141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er sjálfsagt að mæra hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar sem hafa unnið að málinu af mikilli festu og heilum hug, enda þarf oft jafnaðarmenn til til að ná framförum á Íslandi. Varðandi bótaflokkana er það alveg rétt hjá hv. þingmanni — og það er rétt að taka fram varðandi örorkulífeyrinn að því miður er ekki komið samkomulag um breytingar á því kerfi til frambúðar þótt öll lagaumgjörðin varðandi örorkulífeyri batni til mikilla muna núna — að mínu mati fara saman í bótaflokk grunnlífeyririnn, tekjutryggingin og heimilisuppbótin en það er greitt mismunandi til fólks eftir því hvort það býr eitt eða ekki. Það er einn bótaflokkur sem getur verið skilgreiningaratriði og við tökum það í annarri umræðu, ég og hv. þingmaður Svo verður áfram framfærsluuppbót til að tryggja þá sem allra minnst hafa en hún er löguð meira að hinu kerfinu þannig að það verður skiljanlegra fyrir fólk.

Síðan vil ég segja að fjölgun ellilífeyrisþega er náttúrlega mikið ánægjuefni. Bæði er þjóðinni að fjölga og svo eru þetta mannmargir árgangar sem eru núna að eldast. Heilsufar fólks verður sífellt betra og fleira fólk sem nær hærri aldri getur lagt meira til samfélagsins. Ég fagna því að hér búi margir aldraðir við góða heilsu.