141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg gáttaður á síðustu hugleiðingu hv. þingmanns Ég er að tala um lýðfræðilegar breytingar og það er ekkert fagnaðarefni heldur staðreynd. Það verða tvöfalt fleiri sem fara á ellilífeyri, tvöfalt fleiri verða sjötugir eftir 15 ár en í dag og það er hvorki gleðiefni né sorgarefni, það er bara svona. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann. Það er verið að gefa í og slá í og hækka til framtíðar um fleiri milljarða og milljarðatugi í frumvarpinu og um það fjallar umsögn fjármálaráðuneytisins en hv. þingmaður gerir lítið úr því. Þetta er mikið alvöruefni og það verða eftir sem áður þrír bótaflokkar. Einn er uppbót samkvæmt 60. gr. og hann er ekki greiddur til þeirra sem búa í útlöndum þannig að mismunandi er hvernig það er meðhöndlað. Það verða eftir sem áður þrír bótaflokkar en vissulega er einföldun vegna þess að öll frítekjumörk eru horfin.