141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir og hæstv. ráðherra kom inn á í andsvari við mig áðan, það virðist hafa gleymst að gera ráð fyrir þeim 3–4 milljörðum sem eru þegar í núverandi lögum þótt ekki verði gerðar breytingar á. Hæstv. ráðherra orðaði það svo að gleymst hefði að gera ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun. Ég vil segja að ég lít þannig á, hvort sem það er rétt eða rangt hjá mér, að harðorðar umsagnir fjárlagaskrifstofunnar, sem margir hafa hrokkið við, séu skilaboð. Það er verið að reyna að vekja okkur til umhugsunar og fá okkur til að horfast í augu við veruleikann. Ég skynja það þannig á fundum í fjárlaganefnd. Það er ekki sagt en ég skynja það svo vegna þess að mín skoðun er sú að ef við tökum ekki mjög styrkum höndum á ríkisfjármálunum förum við fram af ákveðnu hengiflugi og þá erum við ekki einu sinni fær til að vera með velferðarmál á þeim stað sem við erum með þau í dag. Það er auðvitað mesta hættan.

Að mínu viti þurfum við að forgangsraða, taka mjög margar óþarfa framkvæmdir út aftur og setja hugsanlega mikilvæg málefni á dagskrá.