141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að segja að ég mun sakna mjög hv. þingmanns á þingi eftir kosningar þar sem hann hefur tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér áfram. Hann hefur verið einn af bestu vinum ríkissjóðs í þessum sal og ekki eingöngu vegna þess að hann er stjórnarandstöðuþingmaður heldur af því að hann hefur í raun og veru látið sig málaflokkinn varða.

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það með hv. þingmanni að gríðarlega mikilvægt er að samkvæmt nýjum þingsköpum átti að leggja fram áætlun um ramma í apríl á hverju ári. Það er í dálitlu uppnámi núna vegna þess að enginn hafði gert ráð fyrir því að kannski væru aðrar tímasetningar á kosningaári. Ég held að það verði líka að vera eitt af fyrstu verkefnum á nýju kjörtímabils að leggja fram ríkisfjármálaáætlunina til umræðu í þingsal svo allir þingmenn skilji alvöruna að baki og hvernig við verðum að forgangsraða.