141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það fallega gert af hv. þingmanni að tala svona vel um flokkssystkini sín þegar hún ræðir um þetta mál. Það er hins vegar öllum ljóst að það mál sem við ræðum hér verður ekki afgreitt. Þetta er stórt og mjög flókið mál sem við erum að sjá í fyrsta skipti í þessari umræðu og vitaskuld fer það ekki mikið lengra. Það fer væntanlega til umsagnar og síðan ekki söguna meir fyrr en á næsta kjörtímabili.

Það sem mér finnst hins vegar blasa við í þessu frumvarpi er að það er — þó að það sé ekki sagt beinum orðum — áfellisdómur um það sem gert hefur verið á síðustu árum. Þá er ég að vísa til þeirra skerðinga sem beitt hefur verið gagnvart eldri borgurum í landinu og alveg sérstaklega hinna miklu tekjutenginga sem hafa færst mjög í aukana á þessu kjörtímabili og hafa valdið því, sem hæstv. velferðarráðherra rakti hér áðan í máli sínu, að fyrir hverja krónu sem menn fá í lífeyrissjóðsgreiðslur verða til skerðingar í almannatryggingakerfinu, að minnsta kosti að mjög miklu leyti.

Það sem verið er að reyna að gera í þessu frumvarpi er það að menn eru að reyna að stíga upp úr þessu og reyna að komast út úr þessum vanda sem sannarlega hefur orðið til þegar lífeyrisgreiðslur valda því að menn fá skerðingar í almannatryggingakerfinu og menn fara smám saman ekki að hafa neina hagsmuni af því fjárhagslega að afla fjár og leggja það í lífeyrissjóð.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hún taki ekki undir það með mér að í raun og veru sé þessi stefnumörkun eins konar uppgjör við þá stefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár. Sannarlega hefur tekjuskerðingum líka verið beitt á fyrri árum en þó aldrei eins mikið og núna og það er undan því sem eldri borgarar kvarta svo sárlega.

Eitt í viðbót: Það er alveg ljóst að kostnaðaraukinn af þessu er mjög mikill, hvernig sem menn horfa á málin. Það er líka rétt, sem komið hefur fram, að ef menn sjá ekki aðrar lausnir er hættan sú að þetta hafi þau áhrif að svigrúm okkar til að bregðast við auknum kostnaði á öðrum sviðum öldrunarþjónustu en tryggingaþættinum muni smám saman skerðast.