141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er ekki uppgjör við niðurskurð í kjölfar hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. Þetta frumvarp er mikilvægur punktur — það er náttúrlega ekki búið að samþykkja lögin — frá því að gagnger endurskoðun hófst á almannatryggingakerfinu árið 2007, fyrir hrun, en ferlið hefur mátt þola ákveðnar tafir vegna þess.

Varðandi niðurskurðinn þá er alltaf leiðinlegt að standa í honum. Það var jafnvont að skera niður í almannatryggingakerfinu og í fæðingarorlofskerfinu, en við stóðum frammi fyrir mjög erfiðu vali. Og ég get svarað fyrir það án þess að skammast mín að hafa staðið að þessum niðurskurði, af því að það var nauðsynlegt og það var ekki val um neitt annað.

Það breytir ekki því að sá niðurskurður var tímabundinn. Það var sagt: Sum af þessum ákvæðum gilda ákveðinn tíma, eins og varðandi hlutfallið í skerðingarprósentu á tekjum, á meðan gagnger endurskoðun á kerfinu mun vega upp á móti öðrum þáttum. Þar verður tekið tillit til þessa og var hugsunin allan tímann.

Það er pólitískt fýsilegt fyrir stjórnarandstöðuþingmenn að koma hingað upp og núa okkur stjórnarþingmönnum því um nasir að hafa skert greiðslur í almannatryggingakerfinu. Við því segi ég bara: Það var ekkert annað til ráða en að gera slíkt, enda var það hluti af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar voru til þess að breyta vaxtagreiðslum ríkissjóðs í velferð.