141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stefnan sem frumvarpið byggir á var mótuð árið 2007 svo að ég endurtaki það. Aukið var á tekjutengingar því að markmiðin með niðurskurðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar, önnur en þau að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, voru þau að verja þá sem minnst höfðu og það þýddi auknar tekjutengingar.

Ég tel mikilvægt að benda jafnframt á að samhliða auknum tekjutengingum, af því að þetta er flókið kerfi og gerðar hafa verið ýmsar breytingar, voru frítekjumörk úr lífeyrissjóði hækkuð. Það er hægt að fara í langa tæknilega umræðu um þetta kerfi en ég get þó sagt í fáum orðum, herra forseti, að skorið var niður í kerfinu, reynt að gera það með eins sanngjörnum hætti og tök voru á, (Forseti hringir.) og við gerðum það líka rólegri í ljósi þess að fram undan (Forseti hringir.) væri heildarendurskoðun á kerfinu. Nú liggur hún fyrir og ég er stolt (Forseti hringir.) af henni, herra forseti.