141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún hefur fjallað töluvert um velferðarmálin í þinginu. Hv. þingmaður situr í velferðarnefnd og hefur kynnt sér þau mál vel.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann snýr að áhyggjum mínum um forgangsröðun í ríkisfjármálunum. Þetta er mikilvægt málefni sem við fjöllum um hér og standa ekki pólitískar deilur um að við þurfum að vanda okkur og gera eins vel og hægt er þar, en þegar upp er staðið snýst þetta allt um stöðuna á ríkissjóði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé löngu orðið tímabært að forgangsraða í ríkisfjármálunum vegna þess að ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á núna endar það með því að við þurfum að skera mjög harkalega niður í velferðarkerfinu, sem er auðvitað stærsti útgjaldaliðurinn.

Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru tæpir 90 milljarðar á árinu 2013, 400 milljarðar á næstu fjórum árum í skjóli gjaldeyrishafta. Það þýðir í raun og veru að vaxtakostnaður ríkissjóðs væri mun lægri ef ekki væru gjaldeyrishöft. Við sjáum hér hvert málið á fætur öðru, öll eru þau væntanlega brýn og góð en útgjaldaaukningin hleypur ekki lengur á milljörðum, hún hleypur nú á tugum milljarða bara vegna þeirra mála sem berast inn í þingið núna og sem bárust í haust.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um hvort hún geti tekið undir skoðun mína um mikilvægi þess að fara þá að forgangsraða í þágu velferðarmála og skera niður óþarfafjárfestingar eins og til að mynda hús íslenskra fræða og þar fram eftir götunum, náttúruminjasýningar og svoleiðis vitleysu, þegar staða ríkissjóðs er með þessum hætti.