141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér stórt og mikið mál sem er frumvarp velferðarráðherra í 123 greinum og að auki fylgja tvö bráðabirgðaákvæði. Í þeim ræðum sem haldnar hafa verið um málið hér í dag hefur víða verið komið við. Ég ætla að reyna að ræða það út frá þeirri stóru mynd sem dregin er upp í frumvarpinu og þá sérstaklega út frá áliti og umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það vil ég segja strax að þetta er ekki fyrsta umsögnin frá þeirri ágætu fjárlagaskrifstofu sem vekur mann til umhugsunar um frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég minni hv. alþingismenn á að eitt sinn var þáttur í útvarpi allra landsmanna sem hét Óskalög sjúklinga. Menn sendu inn kveðjur til vina og vandamanna og óskað var eftir því að útvarpið flytti þeim fallegar línur og tóna, falleg lög. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessir síðustu dagar þingsins helst líkjast því að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu að senda til Alþingis og þjóðarinnar góðar kveðjur með ósk um að spiluð verði lög, lög sem Alþingi er ætlað að setja, en þau eru þess eðlis að þau eru óskalög, einfaldlega vegna þess að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins staðfestir að platan er ekki lengur til í safninu; það er ekki til fyrir þeim útgjöldum og þeim lögum sem óskað er eftir að Alþingi setji og þjóðin spili.

Það er harður dómur sem kemur fram í umsögnum fjárlagaskrifstofunnar og að því er ég tel með réttu. Ég er ekki endilega að dæma allt sem sagt er í umsögnum um frumvarpið rétt, en tónninn sem sleginn er er viðvörunartónn og þingið er beðið um að hafa vara á sér gagnvart þeim útgjaldaauka sem kann að leiða af þeirri lagasetningu sem hér er til umræðu. Og það er ekki að ástæðulausu.

Ef við lítum yfir þróun skulda og tekna ríkissjóðs á síðustu árum erum við á einni og sömu leiðinni. Ég hef skoðað tölur frá Hagstofu Íslands og þar sjáum við að heildarskuldir, peningalegar skuldir, ríkissjóðs 2004 voru 481 milljarður, þá voru tekjurnar 307 milljarðar. Skuldir voru þá hlutfall af tekjum 156%. Svo lækkar þetta nokkuð, milli áranna 2007 og 2008 verður mikil breyting þegar skuldirnar fara upp í tæpa 1.200 milljarða og tekjurnar í tæpa 480 milljarða. Þá er hlutfall skulda af tekjum komið í 250%.

Svo vex þetta ár frá ári. Þrátt fyrir allt okkar tal um að við séum á réttri leið, við séum að ná betri tökum á ríkisfjármálum o.s.frv., háttar nú þannig til að á milli áranna 2010, ef maður tekur það eingöngu, og 2012 fara skuldir ríkissjóðs úr 1.630 milljörðum upp í 1.935 milljarða, þær hækka um rúma 300 milljarða. Á sama tíma fara tekjurnar úr 470 milljörðum í 520 milljarða — 50 milljarðar á móti. Þannig að hlutfall skulda af tekjum er komið í 370% og vex ár frá ári. Það skyldi því engan undra að þingmenn komi hingað upp og vitni til þeirra umsagna sem fjárlagaskrifstofan gefur með hverju málinu á fætur öðru — í þessu máli sérstaklega, heillanga umsögn, mjög ítarlega.

Við höfum líka séð þetta í öðrum frumvörpum og nægir að nefna það sem til umræðu hefur verið síðustu vikurnar. Áform eru uppi um að bæta í Lánasjóð íslenskra námsmanna um 2 milljörðum kr. Við vorum í fjárlaganefnd að fjalla um frumvarp til breytinga á hlutafélagi um byggingu Landspítalans; tugir milljarða sem þar eru.

Forseti. Er klukkan biluð?

(Forseti (ÁÞS): Já, klukkan er biluð. Þingmaðurinn á enn eftir um það bil 10 mínútur af ræðu sinni, sýnist mér. Við skulum skoða það betur. Þingmaðurinn getur haldið áfram máli sínu.)

— Óáreittur. Kærar þakkir.

Við sjáum þetta í fleiri málum. Ég nefndi Landspítala – háskólasjúkrahús, áform eru uppi um að styrkja innviði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi, ég nefndi LÍN. Í andsvörum áðan var gerð að umtalsefni hin makalausa fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar upp á allmarga milljarða ef ekki tugi milljarða þegar við metum hana alla til botns. Komið er fram frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið, það mun verða um milljarður þar sem ríkissjóður þarf að bæta upp (SER: 800 milljónir) — 800 milljónir, það munar 200 milljónum, ég treysti því nú tæplega að þetta innskot hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar hafi verið rétt upp á krónu, ég óttast að mitt skot hafi verið nær lagi, þessi milljarður sem ég nefndi. En hvað um það, inn kemur fullt af málum upp á marga milljarða, og tugi milljarða sum hver, og á sama tíma tökum við við þessu máli frá hæstv. velferðarráðherra, sem mælir fyrir því í ágætri ræðu að hér sé þörf á að breyta.

Vilji þingsins stendur örugglega til þess, þvert á allar pólitískar hreyfingar, að bæta úr því kerfi sem um er að tefla. Enginn þingmaður mælir gegn því að gera úrbætur í málefnum aldraðra eða í almannatryggingakerfinu, en forgangsröðunin hjá núverandi stjórnvöldum hefur verið á þann veg að okkur reynist það ekki unnt. Þau áform sem birtast í þessu frumvarpi rúmast ekki innan þeirrar áætlunar sem verið er að vinna samkvæmt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Af hverju rúmast þetta ekki hér inni? Jú, einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur forgangsraðað með öðrum hætti en þeim að hún leyfi okkur að bregðast við þeim óskum sem hér koma fram. Óskalögin sem hæstv. velferðarráðherra vill að við leikum komast ekki á fóninn vegna þess að ekki eru til fjármunir til að koma plötunni á snúning.

Fram hefur komið hjá þeim sem hér hafa tekið til máls að meginmarkmiðið með frumvarpinu sé að styrkja stöðu ellilífeyrisþega, einfalda kerfið og gera það gegnsærra með því að stjórnsýslan verði læsilegri. Ekki er vanþörf á því. Flækjustigið er vissulega hátt í þessum efnum og ég held að við höfum öll heyrt notendur þessa kerfis, jafnvel þá sem vinna í því, kvarta sáran undan því hversu mikill frumskógur það er orðið.

Ég heyrði á andsvörum hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Jónínu Rósar Guðmundsdóttur hér áðan að þeim bar ekki saman um hversu mikil einföldun þetta væri. Ég treysti ágætlega orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals, hann er mjög vel heima í þessu kerfi, hefur verið að rýna í það í allmörg ár. Þegar hann metur það svo að ekki sé um ýkja mikla einföldun að ræða segir það mér einfaldlega að við megum ganga lengra í þá átt en frumvarpið ber með sér.

Ég held að frumvarpið dragi einfaldlega upp línur í því sem við gjarnan vildum sjá en það er mitt mat að enn sé töluvert langt í land til að þeim áföngum verði náð. Ég vitna til þeirra fyrirvara sem ég geri við málið á grundvelli fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Í framsöguræðum hæstv. ráðherra og einstakra nefndarmanna í velferðarnefnd hefur komið fram að þetta verkefni hafi staðið frá árinu 2007. Það þarf allnokkurn tíma til að breyta þessu kerfi og vissulega hafa menn lent í ákveðnum áföllum á þeirri vegferð. Í apríl á síðasta ári var ætlunin sú að sá starfshópur sem þá var settur á laggirnar ætti að vinna að lokafrágangi þessa máls og það er að koma til okkar nú.

Ég vil ítreka að ég álít að frumvarpið sé ósk um úrbætur án þess að menn hafi trú á því að þetta gangi eftir. Gildistími þess, sá fyrsti, er settur 1. júlí næstkomandi þegar vitað er að ekki er nokkur einasti möguleiki til að verða við því. Ég ætla að þetta sé skjal sem menn vilja ganga fram með fyrir kjósendur á vori komanda og segja: Hér liggur þetta fyrir. Þetta er okkar vilji. Við ætlum okkur að gera þetta með þessum hætti. Vissulega er hægt að réttlæta ýmsa góða hluti í þessu, en einn þáttur stendur ætíð út undan og það er spurningin um það hvernig menn ætla að fjármagna þetta á sama tíma og hleypt hefur verið af stokkunum öðrum verkefnum sem kalla á fjármuni sem annars hefðu getað runnið til þess sem hér er um að ræða.

Það kann vel að vera að það sé rétt að frumvarpið eins og það er úr garði gert liggi til þess að þeir sem nota almannatryggingakerfið og hinir sem vinna í því skilji hlutina betur. Mér er það hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna aukin útgjöld þarf til að gera slíkt kerfi gegnsærra. Veruleikinn er sá, það er nauðsynlegt að segja það hér, að við kunnum að neyðast til þess, þegar farið verður að vinna frekar með frumvarpið á nýju kjörtímabili, að ná fram sömu einföldun á kerfinu sem stefnt er að með því að beina fjármunum í kerfinu frekar til þeirra sem meira þurfa á þeim að halda, að þeir fái meira út úr því kerfi en nú er. Ég held að við munum þurfa að endurskoða frumvarpið þannig að þeir sem síður þurfa á þessum greiðslum að halda mæti afgangi þegar við förum að innleiða breytingar í þessu. Fjárhagsstaða ríkissjóðs er einfaldlega þannig.

Hinn kosturinn er sá að skera niður þau verkefni sem sett hafa verið af stað og stöðva útgjöld sem enn hafa ekki verið áætluð. Ég vil nefna tiltölulega lítið dæmi í því stóra samhengi verka sem sett hafa verið í gang án fjármögnunar, en það er uppsetning náttúruminjasýningar í Perlunni í Reykjavík. Það er ágætt dæmi um verkefni sem hljóta að kalla á endurskoðun. Á sama tíma og kallað er eftir auknu fé til heilbrigðisþjónustunnar í landinu er þar verið að setja 500 millj. kr. í stofnkostnað án þess að gera ráð fyrir 200 millj. kr. árlegum rekstrarkostnaði sem leiðir af því sama verki. Forgangsröðunin er þar með komin á hreint, þ.e. menn kjósa fremur að setja 500 millj. kr. í stofnkostnað hvað varðar þetta tiltekna verk og eyða í framhaldinu 200 millj. kr. á hverju ári til þess að keyra þá sömu sýningu áfram, í stað þess að verja fjármununum til þess sem við getum kallað mýkri mál. Það er ekki forgangsröðun að mínu skapi.

Rétt er að ítreka, þegar þetta frumvarp er skoðað, að velferðarkerfinu sjálfu stendur mesta ógnin af því að hagvöxtur er ekki nægur í landinu til að viðhalda því kerfi sem byggt hefur verið upp og því síður, að öllu óbreyttu, til að auka við útgjöld ríkissjóðs til þeirra mála sem við viljum helst standa vörð um.

Undir lok máls míns vil ég geta þess, forseti, að ég hef líka áhyggjur af því að við fáum fram hvert frumvarpið á fætur öðru frá hæstv. ríkisstjórn — viðkomandi fagráðherrar leggja fram frumvörp sem eru allra góðra gjalda verð en annað ráðuneyti í þeirri sömu ríkisstjórn hefur uppi slíka fyrirvara við það að himinn og haf virðist þar á milli, annars vegar milli þess fagráðuneytis sem sér um fjárhagsleg mál og skuldbindingar ríkissjóðs og hins vegar þeirra fagráðuneyta sem sjá um viðkomandi málaflokk. Það bendir ekki til þess að ríkisstjórnin hafi heildstæða sameiginlega sýn til þess meginverkefnis og viðfangsefnis sem við er að glíma, þ.e. að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Það er fyrirkvíðanlegt ef við eigum að standa í því hér á síðustu dögum þingsins að fá hvert frumvarpið á fætur öðru sem er þannig úr garði gert.