141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[14:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar og frummælanda fyrir að fylgja þessu máli úr hlaði. Hér er án efa um býsna stórt mál að ræða, verið að gera töluvert miklar breytingar og eðlilegt að sitt sýnist hverjum um þær. Það er mikilvægt að þær fái vandaða og góða umfjöllun í nefnd og leitað verði eftir umsögnum.

Ef ég skil þetta frumvarp rétt, eftir að hafa reynt að kynna mér það nokkuð hratt, er að meginstofni til verið að einfalda ákveðna hluti í kerfinu en um leið að auka töluvert kostnað, í það minnsta þegar fram líða stundir. Ég tek undir með þeim sem hafa velt því fyrir sér hvernig eigi að fjármagna þann kostnað, það er mikilvægt að skoða það. Þá er brýnt að horfa til þess hvernig aldurssamsetning þjóðfélagsins mun breytast á næstu árum, hver fjölgunin verður hjá þeim sem fá ellilífeyri og þiggja almennt aðrar greiðslur, hvort sem það eru lífeyrisgreiðslur eða bætur frá ríkinu.

Við þurfum að búa okkur undir það að öldruðum mun fjölga á komandi árum og áratugum. Væntanlega munu þeir sem ná háum aldri jafnframt verða fleiri en nú er. Við í Framsóknarflokknum höfum lagt áherslu á að taka þátt í þeirri vinnu sem unnin hefur verið um endurskoðun almannatryggingakerfisins og er kannski undirstaðan að þessu frumvarpi og fulltrúi okkar hefur komið að undirbúningi þess. Sér þess meðal annars dæmi í ályktunum sem við sendum frá okkur á síðasta flokksþingi.

Það sem mestu skiptir er að menn geri sér í fyrsta lagi grein fyrir því hver fjöldi lífeyrisþega verður, hver sú þróun verður og í öðru lagi hvað séu eðlilegar upphæðir, ef ég má orða það þannig, sem greiddar eru út til aldraðra í formi lífeyris og hver sá kostnaður verður í framtíðinni. Sá kostnaður fer að sjálfsögðu ekki neitt. Þótt við getum hugsanlega verið sammála um að hann sé réttmætur þarf að mæta kostnaðinum með tekjum einhvers staðar frá.

Við framsóknarmenn ályktuðum á flokksþingi okkar að mikilvægt væri að aldraðir nytu jafnræðis og sanngirni í samfélaginu, og virkni eldri borgara væri tryggð. Mín persónulega skoðun hefur verið sú að við eigum að hvetja eins mikið og við getum þá sem það vilja og hafa heilsu til til að vinna lengur. Það er í mörgum tilfellum það besta sem fólk getur gert, að vera á vinnustað og fá þar félagsskap og fá greitt fyrir vinnu sína að sjálfsögðu, vera umbunað eins og öðrum. Það kann líka að vera eðlilegt að ef fólk hefur ákveðið háar tekjur komi til einhver skerðing lífeyrisgreiðslna á móti.

Það er mikilvægt að kerfið á hverjum tíma sé nokkuð gagnsætt og augljóst. Ég held að það sé mikilvægt að nota ferðina til að einfalda almannatryggingakerfið og ég held að það sé markmiðið með þessu frumvarpi, sér í lagi ellilífeyriskerfið sem hér er fjallað um að meginstofni til. Það þarf að fækka flækjustigum og gera allt gegnsærra og augljósara. Við hvetjum eindregið til þess að svo verði gert.

Ég ítreka enn og aftur að það er mjög mikilvægt að farið verði yfir alla hluti og líka þá sem kannski er ekki tekið á í þessu frumvarpi.

Það hefur aðeins verið komið inn á þá kjaraskerðingu sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera allt sem hægt er til að afturkalla það og skoða um leið að lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra. Við höfum lagt áherslu á það. Það er óeðlilegt að þessi hópur verði sérstaklega eftir. Þar af leiðandi höfum við viljað leggja áherslu á að þetta verði lagað.

Aðeins um ákveðin atriði í þessu frumvarpi. Mér finnst athyglisvert að fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins sjái ástæðu til að benda á að ekki hafi verið haft samráð við ráðuneytið um möguleg áhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð. Þetta kemur fram í umsögn skrifstofunnar. Verð ég að segja að það er mjög undarlegt að það hafi ekki verið gert. Það væri ágætt að fá skýringar á því í þessari umræðu, ef mögulegt er, frá þeim sem leggja málið fram, hvers vegna samráð var ekki haft. Það hlýtur að þurfa að vera samspil á milli breytinga sem kalla á aukin útgjöld og þeirrar ríkisfjármálaáætlunar sem lögð er fram. Það þarf ekki að verða til þess að hætt sé við verkefnið eða neitt slíkt, heldur til að allir átti sig á umfanginu og geti gert ráðstafanir til að mæta útgjöldum.

Það kemur fram í áliti fjárlagaskrifstofunnar að að óbreyttu muni þetta leiða til niðurskurðar á öðrum sviðum eða hækkana á sköttum til að mæta kostnaðinum. Auðvitað eru aðrar leiðir líka færar og þær mikilvægustu og sem mestu skipta eru að koma efnahagslífinu betur af stað og láta það vinna hraðar og skapa fleiri störf og meiri tekjur í ríkissjóð. Það er afar mikilvægt. Ég skil hins vegar vel að fjárlagaskrifstofan geri athugasemdir í ljósi þess að samráð virðist ekki hafa verið til staðar, ef ég skil þetta rétt.

Á bls. 85 í frumvarpinu er greinargerð um helstu breytingartillögur frumvarpsins og bráðabirgðaákvæði og þar kemur fram að breytingarnar séu þríþættar. Í raun er verið að setja þar fram ákveðin varnarorð um að hætta sé á víxlverkun bóta og frítekjumarks. Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara betur yfir. Þetta er eitthvað sem maður hefur rekið augun í á mjög miklum hraðlestri í gegnum málið, svo það sé nú viðurkennt.

Á bls. 87 er tafla yfir útgjaldaaukninguna og hún lýsir ágætlega þeim verkefnum sem fram undan eru til að mæta þessum útgjöldum. Ég hygg að í sjálfu sér deili enginn um að aldraðir eigi að búa við sanngjörn og góð lífsskilyrði og kjör. Á sama tíma verða menn að reyna að sjá hvernig þetta er allt fjármagnað. Það verður ekki gert nema í gegnum ríkissjóð.

Mig langaði að koma inn á eitt mál sem tengist þessu beint eða óbeint, það fer eftir því hvernig menn líta á það, en það er lífeyriskerfi landsmanna. Við framsóknarmenn ályktuðum á flokksþingi okkar sem við héldum fyrir skömmu að við vildum endurskipuleggja lífeyriskerfið með það að markmiði að jafna réttindi og taka í raun upp eitt réttindakerfi án tillits til fjölda lífeyrissjóða. Við gerum okkur grein fyrir því að þau mál verða að leysast að mestu leyti á milli þeirra sem stýra opinbera kerfinu og hinu frjálsa eða einkakerfinu, en bendum hins vegar á að mikilvægt sé að fara í þetta verkefni.

Við ályktuðum líka um ákveðið frelsi þegar kemur að vali í stjórnir lífeyrissjóða og hvar menn ávaxta sitt pund, ef svo má orða það. Það er mikilvægt að horfa til þess að hagsmunaárekstrar verði ekki á milli fulltrúa lífeyrissjóðanna og fyrirtækja sem fjárfest er í. Þetta er grunnstefið í því sem við ályktuðum um lífeyrissjóðina.

Herra forseti. Það er mikilvægt að almannatryggingakerfið sé stöðugt undir smásjánni, stöðugt í endurskoðun. Það er gríðarlega stórt og mikið kerfi sem miklir fjármunir fara í gegnum. Það er mikilvægt að kerfið standi undir því verkefni sínu að vera almannatryggingakerfi sem veitir líka félagslegan stuðning líka. Við þurfum að taka þátt í því að tryggja að þeir sem hafa í gegnum árin lagt mikið á sig til að búa þeim sem yngri eru betra umhverfi og framtíð fái sanngjörn kjör. Við þurfum að líta til eldri borgara og ellilífeyrisþega með þeim augum að þarna er á ferðinni fólk sem hefur skaffað mikið til samfélagsins.

Mig langar að nefna nokkur atriði, herra forseti, sem við framsóknarmenn samþykktum á flokksþingi okkar og ég held að sé ágætt innlegg í þessa umræðu. Við ályktum meðal annars um að við viljum stuðla að sveigjanlegum starfslokum og lífeyristökualdri þannig að þekking og starfsreynsla ráði í meira mæli starfslokum en lífaldur. Þetta er í samræmi við það sem ég sagði áðan, að það getur verið mjög góður kostur fyrir fólk að vinna lengur ef það hefur heilsu og getu til.

Síðan teljum við mikilvægt að meira sé hlustað á Samtök aldraðra, sem eru býsna sterk og öflug samtök, þegar taka á ákvarðanir um kjör og framtíð, aðstæður og umhverfi aldraðra. Við teljum líka að einfalda verði almannatryggingakerfið og gera það betra úr hendi og sanngjarnara. Ég held að í frumvarpinu sé nú lagt upp með það að einfalda kerfið og það er mjög til bóta ef það næst.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að það sé kannski óraunhæft að klára þetta mál á þessu þingi vegna þess stutta tíma sem eftir er og þeirra áherslna sem við sjáum hjá ríkisstjórnarflokkunum. Það er mikilvægt að halda áfram með þetta mál eða nýtt mál sem tekur á því sama á næsta þingi.

Það er eitt sem ég nefndi ekki áðan sem við framsóknarmenn höfum líka ályktað um, en það er að skerðing tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði verði afnumin í áföngum. Ég held að þetta sé í sjálfu sér réttlætismál en að sjálfsögðu, eins og alltaf, þarf að gera það af skynsemi og áfangaskipta því verkefni ef mögulegt er.

Það er mjög freistandi að fara inn á önnur mál og ræða málefni fjölskyldna, jafnréttismál, málefni fatlaðs fólks og annarra sem falla undir velferðarmál, en ég ætla að geyma það því að hér þurfum við fyrst og fremst að horfa á lífeyrisréttindin.

Málinu verður væntanlega að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar. Þar eru og hafa verið ærin verkefni. Ég vona þó að nefndin gefi sér góðan tíma og ráðrúm verði veitt til þess að nefndin geti leitað eftir þeim álitum sem þarf að leita eftir og geti fjallað um áhrif þessara breytinga með markvissum og skilmerkilegum hætti þannig að við sjáum á endanum hver raunáhrifin verða að mati þeirra sem fara yfir málið í nefndinni.