141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:06]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þessi hugmyndafræðilega nálgun sem ég set spurningarmerki við. Hver hefur unnið fyrir einhverju og hver hefur ekki unnið fyrir einhverju í samfélagi eins og okkar, í því launamisrétti sem er? Ég er ekkert sammála því að þeir sem nú hafa hæstu tekjurnar hafi unnið sér til einhverra meiri tekna en einhverjir aðrir per se innan samfélagsins sem fá síðan útborgaðar lægri tekjur. Hver borgar hverjum í þessu sambandi? Ég er ekki sammála þeirri hugmyndafræðilegu nálgun. Þetta er samfélagslegt verkefni og samfélagslegt mál. Allir einstaklingar eru í sjálfu sér jafnmikils virði fyrir samfélagið og fyrir þjóðina og þess vegna þarf að gæta að því, bæði í hugmyndafræðilegu nálguninni og orðanotkuninni, að allir séu þar í raun jafnréttháir. Hlutverk ríkisins er að hafa þar miðlunar- og jöfnunarhlutverk. Það á að gera af fullri reisn gagnvart einstaklingi óháð því hvort hann getur verið með einhver sértæk mál, þ.e. er gamall, fatlaður á fæti eða hvað má kalla það. Allir eru jafnmikilvægir samfélaginu og þess vegna þurfum við að taka þessa umræðu á þeim grunni eins og rétt er.