141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða. Ég skynja hjá hv. þingmanni að allir eigi að hafa sömu laun. Nú er það svo, af því að ég veit að hv. þingmaður þekkir sjómennskuna, að þar fara menn kannski út í vondum veðrum og standa í ískulda í myrkri og veiða fisk. Þeir fá hlut, þeir fá mjög há laun. Mér finnst allt í lagi að þeir sem leggja á sig að fara norður í ballarhaf og veiða þar í brjáluðum veðrum og kulda og myrkri séu með hærri laun. Ég vil ekki skattleggja þá niður í það að þeir séu með sömu laun og aðrir sem vinna í Reykjavík.

Eðli starfa er mismunandi. Auðvitað eru allir menn jafnmikilvægir, við skulum ekkert efast um það, en sumir leggja meira á sig til að fá tekjur og aðrir minna. Sumir fara í langskólanám, eins og læknar. Það yrði athyglisvert ef það væri allt saman skattað burt. Til hvers ættu þeir þá að fara í langskólanám? Af hverju ættu þeir að leggja það á sig, kostnað og áhættu? Af hverju ættu þeir að gera það? Þeir mundu ekki gera það.

Svona jafnlaunastefna eins og hv. þingmaður fylgir gengur ekkert upp. Menn væru ekki tilbúnir að fara að veiða norður í ballarhafi í myrkri og kulda og trekk og vinna mjög langan vinnudag ef þeir fengju ekkert fyrir það. Þá mundu þeir bara mæla göturnar í Reykjavík og sérstaklega ef þeir fengju hvort sem er borgað fyrir það, þá mundu þeir bara alveg hætta að vinna. Það er því miður þannig.

Það fer enginn í langskólanám til að læra að verða læknir ef það er síðan allt skattað burt. Draumsýn vinstri manna um að skattleggja allt niður í það sama og láta bætur ekki heita bætur heldur eitthvað annað, samfélagstekjur, er eins og að senda þeim sem þarf að leggja eitthvað á sig og vinna langt nef.