141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá skoðun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að það er útilokað að þetta mál verði klárað á þessum síðustu dögum sem eftir lifa kjörtímabilsins. Kannski er hægt að verja það að þingið taki tíma núna í málið til að hægt sé að senda það til umsagnar, fá til þingsins skoðanir þeirra sem gerst til þekkja í þessum málum þannig að hægt sé að halda áfram vinnunni á næsta þingi eftir kosningar. En það er ástæða til að gera það alveg ljóst að ekki er hægt að byggja upp væntingar um að það sem hér er lagt upp með gangi endilega eftir, ef og þegar kemur að því að gera þetta frumvarp að lögum, því að augljóst er að gangi málið fram óbreytt verður af því töluverð útgjaldaaukning. Þá skiptir miklu að um leið fylgi líka breytingar á áætlunum í ríkisfjármálum þannig að gert sé ráð fyrir slíkri útgjaldaaukningu þar.

Það er augljóst og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að sá útgjaldarammi sem er markaður í frumvarpinu rúmast ekki innan langtímaáætlana í ríkisfjármálum. Þar munar nokkuð miklu. Þess vegna verður að taka þá pólitísku ákvörðun ef á að gera þetta mál að veruleika, ef frumvarpið á að verða að lögum, að gera ráð fyrir þeim útgjaldaauka sem af því hlýst í langtímaáætluninni. Það þýðir bara eitt, virðulegi forseti. Annaðhvort sjá menn fyrir sér auknar tekjur til að standa undir þeim útgjöldum sem hér er lagt upp með eða að það verður samdráttur í öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Eins og ég skildi ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þar sem hann ræddi um ýmsa aðra útgjaldaflokka ríkisins er þetta einmitt það sem við stöndum frammi fyrir þegar við leggjum mat á hvort okkur er fært að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu og ná þeim ágætu markmiðum sem það hvílir á.

Augljóst má vera að allar tilraunir til að einfalda kerfið sem við búum við eru af hinu góða. Kerfið verður að vera þannig að öllum sé ljóst, ekki bara sérfræðingum heldur líka þeim sem nota það, hvernig það er uppbyggt og hvernig það virkar. Það er ekki gott að hafa hlutina þannig að við mönnum blasi flækjustig og myrkviði laga- og regluflækja sem gerir að verkum að venjulegt fólk á erfitt með að leggja mat á það hvaða réttindi í raun og veru eru til staðar. Það hlýst af því óöryggi þegar menn eru til dæmis í vafa um hvort útgreiðslur til þeirra eru í samræmi við það sem vænta mætti út frá þeim lögum og reglum sem gilda um útgreiðslu bóta. Við hljótum því að vera ánægð með það. En hin hliðin er kostnaðarþátturinn sem í þessu er fólginn.

Ég vil benda á að í umsögn fjármálaráðuneytisins er meðal annars rætt um íbúaþróun og mannfjöldaþróun í landinu og hvert stefnir í þeim málum. Það eru þessar tölur sem skipta verulega miklu máli, virðulegi forseti. Ég gríp hér niður í umsögnina, með yðar leyfi:

„Áætlað er að framfærsluhlutfall 67 ára og eldri muni aukast úr um 18% í 29% árið 2030, 34% árið 2040 og 42% árið 2061, líkt og sjá má í mynd 4. Þessi þróun hefur það í för með sér að fjöldi einstaklinga á vinnufærum aldri á hvern ellilífeyrisþega 67 ára og eldri mun lækka hratt fram til ársins 2061.“

Þetta er auðvitað grundvallaratriði. Hvert er svar okkar við þessu? Hvernig ætlum við að mæta þessu? Hvernig ætlum við að mæta því að það verða færri vinnandi hendur sem sjá fyrir fleiri ellilífeyrisþegum? Það þarf að skapa og framleiða verðmæti til að standa undir því að fleiri og fleiri verða á ellilífeyrisaldri og vinnustundirnar verða færri. Það er raunverulega bara eitt svar, virðulegi forseti, og einungis eitt: Að framleiðni hagkerfisins aukist jafnt og þétt.

Virðulegi forseti. Það stendur í raun og veru yfir kapphlaup, kapphlaup á milli framleiðniaukningar annars vegar og hins vegar fjölgun ellilífeyrisþega. Stóra atriðið sem menn verða að gera sér grein fyrir, hvort sem horft er á lífeyrissjóðina eða almannatryggingakerfið eins og hér, er geta hagkerfisins til að standa undir þessu. Það er alveg sama hvað okkur finnst um málið. Það er alveg sama hvernig við nálgumst þetta mál út frá því hvað þörfin er mikil, við munum ekkert frekar en aðrir ná að plata okkur út úr því. Til að geta staðið við þær fyrirætlanir sem hér er lagt upp með — og má ljóst vera á þessum tölum að enginn er öfundsverður að lifa af þeim bótum sem ætlaðar eru — en ef við ætlum að standa bara við það sem hér er sett fram er eitt alveg klárt. Framleiðni og hagvöxtur verður að aukast og verður að aukast hratt, virðulegi forseti. Annars lendum við út af og stöndum uppi með loforð til fólks um framfærslu sem ekki verður hægt að standa undir.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að efnahagsstefnan öll endurspegli þær áherslur okkar, hún endurspegli það að við ætlum okkur að geta staðið við það að ellilífeyrisþegar og bótaþegar og þeir sem eiga um sárt að binda, þeir sem geta illa framfleytt sér, geta ekki tekið fullan þátt í atvinnulífinu, geti gengið að því vísu að fá stuðning frá samfélaginu og meðborgurum sínum til að lifa sómasamlegu lífi. Það verður ekki gert, virðulegi forseti, án þess að undir því sé nægileg framleiðsla og framleiðnin sé vaxandi.

Rétt til að ítreka þetta: Af hverju er framleiðni svona mikilvæg? Vegna þess að það verða alltaf færri og færri einstaklingar sem standa undir verðmætasköpuninni sem þarf til að borga velferð fyrir fleiri og fleiri ellilífeyrisþega. Það þýðir að hver klukkustund sem unnin er verður að skila meiri verðmætum en hún gerði fyrir ári síðan. Þannig verður það að þróast.

Ég tel rétt, virðulegi forseti, að vekja athygli á alvarlegum varnaðarorðum sem birtast í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem er hér í fylgiskjalinu á bls. 92. Það er ástæða til að hlusta á þau orð, virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra fjármálaráðuneytisins er samflokksmaður þess hæstv. ráðherra sem flytur þetta mál og að starfsmenn þessa ráðuneytis segja að með frumvarpinu sé vegið að helsta styrkleika í stöðu ríkisfjármála á Íslandi. Sá styrkleiki felst í því, svo ég grípi niður í umsögninni, með leyfi virðulegs forseta, „að á komandi áratugum taki almenna lífeyrissjóðakerfið smám saman við sem meginstoð greiðslu lífeyris til vinnandi fólks þegar það kemst á lífeyrisaldur.“

Þá segir hér áfram:

„Með frumvarpinu er hins vegar vegið að þessum styrkleika sem leiðir af lífeyriskerfinu og þar með skerðist svigrúm ríkissjóðs til að mæta yfirvofandi öldrunarkostnaði framtíðarinnar. Frumvarpið felur einnig í sér að útgjöldin munu fyrst aukast verulega umfram það sem reiknað hefur verið með þannig að þau nái hámarki við mun hærra útgjaldastig og um áratug síðar en í núverandi kerfi auk þess sem lækkun á ellilífeyrisútgjöldunum eftir það verður hægari.“

Virðulegi forseti. Enn og aftur. Hér eru varnaðarorð og athugasemdir úr fjármálaráðuneytinu sem stýrt er af hæstv. ráðherra sem er samflokksmaður þess ráðherra sem leggur málið fram. Ég gef mér að þetta hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundum og að hæstv. fjármálaráðherra hafi gert hæstv. velferðarráðherra fulla grein fyrir þessum þætti málsins. Það verður áhugavert að sjá hver málflutningur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verður í þingsalnum við meðferð málsins á þingi þegar fyrir liggja þessi varnaðarorð úr hennar eigin ráðuneyti.

Að lokum vil ég rétt aðeins víkja að þeim þætti sem snýr að fjármögnun kerfisins, hinum mörkuðu tekjustofnum. Um það hafa margir rætt, bæði hvað varðar þetta mál og önnur, að það kerfi að marka tekjustofna með sérstökum hætti er úr sér gengið. Það er miklu eðlilegra að líta svo á að ríkissjóður afli sinna tekna með skattheimtu og síðan sé þeim peningum útdeilt úr ríkissjóði til verkefna sem Alþingi og framkvæmdarvaldið hafa ákveðið að rétt sé að gera. (Gripið fram í: Stjórnarskráin.)

Hér er kallað úr sal, virðulegi forseti, stjórnarskráin. Að sjálfsögðu lýtur þetta allt stjórnarskránni og hlítir henni, hvort sem skattstofnarnir eru markaðir sérstaklega eða eru almennir. Ég held að málið hreyfi ekki því. Aðalatriðið er að ekki er ráðlegt að binda útgjaldalið eins og til dæmis þennan við ákveðna markaða tekjustofna vegna þess að slíkir tekjustofnar geta sveiflast til en útgjöldin hverfa ekki og geta jafnvel aukist á sama tíma og tekjustofnarnir gefa eftir. Þá er miklu nær, virðulegi forseti, að líta svo á að kerfið sé fjármagnað úr ríkissjóði og ríkissjóður fjármagni sig með almennri skattheimtu eða hvernig sem ríkissjóður gerir það. Þannig á að hafa það.

Ég vek athygli á, virðulegi forseti, að fjárlagaskrifstofan bendir einmitt á þetta atriði. Í umsögn hennar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ljóst er því að framangreint fyrirkomulag um fjármögnun lífeyristrygginga er úr sér gengið og hefur í raun enga hagnýta þýðingu þar sem ríkissjóði ber að greiða fyrir þau lífeyrisréttindi sem ákvörðuð eru í lögum óháð því hvort tryggingagjaldsstofninn hækkar eða lækkar milli ára í takt við efnahagsþróun.“

Það er einmitt lykilatriðið. Það er algjörlega óháð því. Það er ekki dregið úr lífeyrinum með því að tryggingagjaldsstofninn lækki og það getur í raun og veru farið þannig þegar illa árar í efnahagslífinu og þeim fjölgar sem þurfa á aðstoð að halda, að þar með sé gjaldstofninn að fara niður en útgjöldin upp.

Virðulegi forseti. Allt þetta mál bendir okkur bara í eina átt og það er að verkefnið sem bíður okkur varðandi lífeyrissjóðakerfið okkar og almannatryggingar er mjög stórt. Það hversu ójöfn kjör eru í lífeyrismálum opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum markaði, hvernig við ætlum að fjármagna þetta, hvernig við ætlum að haga skipulagi alls þessa — öll þessi atriði standa uppi. Þar af leiðandi hljótum við líka að þurfa að huga að hlutum sem hér voru nefndir áðan, m.a. af hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni, um lífeyrisaldurinn. Við þurfum að horfast í augu við það að á næstu árum og jafnvel áratug eða áratugum muni jafnt og þétt þurfa að hækka lífeyrisaldurinn. Það er líka í samræmi við bætta heilsu þjóðarinnar, aukið langlífi og aukna líkamlega og andlega möguleika fólks til að sinna vinnu þótt það sé komið undir sjötugsaldurinn.

Virðulegi forseti. Ég geri mér engar vonir um að þetta mál klárist á þessu þingi á þeim örfáum dögum sem eftir eru, en málið er þarft og brýnt og stórt. (Forseti hringir.) Við sjáum hvað það gengur langt núna að þessu sinni. Væntanlega verður hægt að (Forseti hringir.) koma því þannig fyrir að það fari til nefndar og í það minnsta að það fáist umsagnir til að vinna áfram að málinu í framhaldinu.