141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er með þetta mál eins og mörg önnur sem nú koma inn í þingið, það þarf ekki að hafa mörg orð um að þau koma allt of seint. Þetta er svolítið eins og ríkisstjórnin hafi einhvern veginn allt í einu áttað sig, litið á dagatalið og séð að nú væri kjörtímabilið búið, nú væri betra að henda inn öllu því sem hún ætlaði að gera á kjörtímabilinu en hefur ekki gert. Ef hæstv. ríkisstjórn vill gera það á síðustu dögunum er það bara svo en einhver hefði sagt að það hefði verið skynsamlegra að taka kjörtímabilið í að vinna mál eins og þessi. Þegar maður hugsar til baka og rifjar upp allan þann tíma sem er búinn að fara í ágreining út af málum eins og stjórnarskránni, Evrópusambandinu, Icesave og í raun flestum, ef ekki öllum, málum sem ríkisstjórnin hefur komið fram með hljótum við að verða svolítið döpur yfir því hvernig hefur verið forgangsraðað á kjörtímabilinu. Hefði ekki verið nær, virðulegi forseti, að við hefðum tekið tíma í að skoða almenna tryggingakerfið og reynt að einfalda það, koma í veg fyrir fátæktargildrur og taka vinnu í og umræðu um þetta stóra mál?

Það hefur alltaf verið nauðsynlegt að fara í nákvæmlega þessa vinnu en sjaldan eða aldrei jafnnauðsynlegt og núna. Ástæðan er einföld, mannfjöldatréð okkar breytist mjög hratt. Fólk af minni kynslóð og kynslóð foreldra minna á færri börn en kynslóðirnar á undan. Mannfjöldatréð er ekki og verður ekki lengur eins og jólatré, þ.e. að fjölmennasti hópurinn sé yngsta fólkið, heldur verður það beinna. Það þýðir að hópur fólks þarf bæði að bera kostnaðinn af þeim sem eldri eru og líka þeim yngri. Það er vandamál sem flestar vestrænar þjóðir eiga við að etja. Við tökum þetta verkefni seinna en aðrar þjóðir, þjóðir í gömlu Evrópu sem oft er kölluð svo. Í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu, svo einhver lönd séu nefnd, hafa menn átt við þetta vandamál að stríða lengur en við. Það er líka stærra vegna þess að þar er ekki lífeyrissjóðakerfi en við Íslendingar vorum svo lánsöm að fara að safna í lífeyrissjóði og þó að ýmislegt mætti betur fara þar eigum við þó fjármuni í þeim sjóðum.

Þetta snýr ekki bara að framfærslu þegar fólk er hætt að vinna heldur líka að til dæmis heilbrigðisþjónustunni. Þegar OECD tók út heilbrigðiskerfið okkar fyrir nokkrum árum var bent á að þó að gæðin væru mikil, faglegi árangurinn góður samanborið við önnur lönd, væri kerfið kostnaðarsamt miðað við aldurssamsetninguna, þ.e. að hér væri hlutfallslega margt ungt fólk. Þumalputtareglan er sú að fyrir hvern sextugan og eldri er kostnaðurinn fjórum sinnum meiri en vegna yngri einstaklinga. Mig minnir að fyrir fimm ára og yngri sé kostnaðurinn tvöfalt meiri en vegna þeirra sem eru þarna á milli. Þetta er þumalputtaregla.

Þetta eru stóru málin sem við eigum við í nútíð og í framtíð. Því miður höfum við ekki rætt þessi mál nægilega. Við höfum heldur ekki rætt það að við erum búin að koma upp fátæktargildrum fyrir fólk. Þegar ég tala um fátæktargildrur er ég að segja að því fólki sem hefur sýnt ráðdeild og sparnað, á einhverja fjármuni í lífeyrissjóði og annan sparnað, er refsað fyrir að hafa sýnt þessa ráðdeild. Skerðingarnar eru það miklar að það kemur beint niður á þessu fólki. Samkvæmt ágætisúttekt um þetta í síðasta tölublaði Frjálsrar verslunar borgar sig ekki fyrir þetta fólk að spara. Því er refsað fyrir sparnað.

Það kemur ekki bara fram í bótakerfinu, það kemur líka fram í kostnaðarhlutdeild þegar fólk er til dæmis í hjúkrunarrými og síðan var tekinn upp skattur sem var búið að afleggja, eignarskattur. Auðlegðarskattur er hann kallaður vegna þess að eignarskattur var orðið mikið skammaryrði. Eignarskattur leggst ekki á tekjur, hann leggst á eignir fólks, og eignirnar geta verið mjög mismunandi. Auðlegðarskatturinn er nákvæmlega það sama en undir öðru heiti. Eignirnar gefa ekki endilega af sér fjármuni. Það getur vel verið óhagstætt, og er það kannski sérstaklega núna, að selja ýmsar eignir, menn fá lágt verð, mun lægra en þeir lögðu í þær og finnst sanngjarnt að fá til baka.

Ástandið er mjög alvarlegt. Ég fékk svar í gær eða fyrradag við fyrirspurn minni um auðlegðarskatt og það sýnir að um 260 einstaklingar greiða meira en helminginn af tekjum sínum í skatt. Reyndar borga 60 einstaklingar 75–100% af tekjum sínum í skatt. Og það þarf sannarlega að greiða ýmislegt meira en skatta. Þetta er eldra fólk, 65 ára og eldra, sem er búið að leggja skatta á en það verður að selja eignir til að greiða skattinn, það er bara þannig. Menn gætu kannski sagt: Heyrðu, okkur er alveg sama því að þetta er ríkt fólk og það er bara mátulegt á það. En ég fullyrði að stór hluti, kannski stærsti hlutinn af þessu eldra fólki, er fólk sem ekki hafði, ekki fékk og ekki mátti greiða í lífeyrissjóð. Það er tiltölulega nýtilkomið að allir geti greitt í lífeyrissjóð. Þess vegna þurfti þetta fólk sjálft að byggja upp sinn eigin lífeyrissjóð.

Þessi ríkisstjórn samdi reglur um að leggja skatta á alla nema sjálfa sig vegna þess að eignin í lífeyrisréttindunum, sem er í rauninni miklu sterkari eign sem þolir miklu meira, sérstaklega lífeyrisréttindi hjá hinu opinbera sem eru bestu réttindin, er til staðar, stjórnarskrárbundin eign, varin af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það fólk sem á réttindi þar, t.d. einstaklingar sem eru búnir að vera lengi í stjórnmálum, á mikil réttindi sem skipta jafnvel hundruðum milljóna, í það minnsta tugum milljóna, og sá hluti eignanna er undanþeginn þessum skatti.

Sömuleiðis kemur fram í svari sem ég fékk á 138. löggjafarþingi að stór hluti fólks greiðir auðlegðarskatt, nánar tiltekið 657 fjölskyldur sem eru ekki með neinar launatekjur en þurftu samt sem áður að borga 1,1 milljarð í auðlegðarskatt. Því má fullyrða, virðulegi forseti, að hér séum við að skattleggja fólk sem er með litlar launatekjur, kannski einhverjar fjármagnstekjur, vonandi í einhverjum tilfellum, en þó ekki miklar, í það minnsta ekki hjá þessum 260 einstaklingum.

Við erum hér með algjöra sérstöðu, virðulegi forseti, vegna þess að þær þjóðir sem hafa haft þessa skatta hafa horfið frá þeim, m.a. vegna þess að þær telja þetta ekki samræmast stjórnarskrá viðkomandi landa. Um það hefur verið dæmt, t.d. í Þýskalandi, en komið hefur fram í svörum við fyrirspurnum mínum vegna þessara mála að ekkert hefur verið litið til þessara landa og ekkert reynt að læra af reynslu þeirra.

Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar var ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um tíma og er afskaplega ánægður með að hafa fengið tækifæri til að flytja frumvarp fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem atvinnutekjur ellilífeyrisþega, 70 ára og eldri, voru ekki taldar með þegar farið var í skerðingar og annað slíkt. Það þýðir einfaldlega að hjá einstaklingum, 70 ára og eldri, sem voru að vinna var ekki skertur lífeyrir eins og gert er þegar um er að ræða aðrar tekjur, t.d. lífeyristekjur. (Gripið fram í: Rétt.) Því miður er það ekki til staðar lengur. Ein leið til að halda uppi velferðarstiginu og sjá til þess að við lendum ekki í vanda út af þessari breyttu aldurssamsetningu er að hvetja eldra fólk og gera því kleift að vinna eins lengi og það vill. Það er full ástæða til. Mjög margir kjósa nefnilega að vinna þó að þeir séu komnir á lífeyrisaldur. Það er ekkert órökrétt, lífaldurinn er alltaf að hækka og 67 ára aldurinn sem við miðum við er ekki einu sinni frá síðustu öld, það var ekki á síðustu öld sem þau skref voru stigin að miða lífeyrisaldur við 67 ára aldur, það var á þarsíðustu öld. Bismarck, sem var forgöngumaður um almannatryggingar, ákvað að uppgjafahermenn mættu eyða síðustu árum sínum án þess að vera í vinnu. Reyndar var það síðasta árið því að það var búið að skoða það að þeir lifðu ekki öllu meira en eitt ár eftir 67 ára aldurinn. Bismarck fannst sjálfsagt að það yrði gert með því að þeir fengju lífeyri úr þýska ríkissjóðnum. Þess vegna eru þessi aldursmörk.

Síðan þetta var ákveðið hefur meðallífaldur fólks örugglega lengst um hátt í 20 ár, í það minnsta 10–20 ár bara á síðustu 15 árum, lengst á Íslandi, um 3,6 ár. Lífaldurinn hefur hækkað alveg gríðarlega og sem betur fer hefur hann ekki bara hækkað heldur er líka fólk miklu heilsuhraustara fram eftir aldri almennt og vill gjarnan taka virkan þátt í atvinnulífinu. Við eigum ekki að refsa fólki fyrir það. Það er enginn vafi að með því að njóta starfskrafta fólks lengur mun allt þjóðfélagið hagnast beint og óbeint og það er hreinlega ekki skynsamlegt að ýta út af vinnumarkaðnum fólki sem hefur margt fram að færa, ég tala nú ekki um fólk sem hefur þá miklu reynslu sem fólk hefur þegar það er komið á þennan aldur.

Ég vildi, virðulegi forseti, í þessari stuttu ræðu bara varpa þessu inn í umræðuna. Þetta mál er hægt að ræða út frá mörgum forsendum og er stórmál sem við hefðum átt að nota þetta kjörtímabil til að fara yfir. Við stigum ákveðin skref á kjörtímabilinu þar á undan en því miður er málið komið hér fram nokkrum mínútum fyrir þinglok (Forseti hringir.) og það gerist voða lítið annað en að við ræðum þetta hér í dag, sendum það til nefndar og fáum vonandi og örugglega vandaðar og góðar umsagnir. (Forseti hringir.) En við misstum af tækifærinu til að breyta og bæta almannatryggingar á Íslandi á þessu kjörtímabili.