141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Ég held að óhætt sé að segja í upphafi að í því gríðarlega stóra frumvarpi er mjög mikið um jákvæða þætti og jákvæðar breytingar og í sjálfu sér er ekki hægt að finna að aðdraganda málsins eða öðru slíku. Eins og sagt er í frumvarpinu hefur verið haft víðtækt samráð við vinnslu málsins, bæði við Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga. Tekið hefur verið mið af tillögum sem komu fram í skýrslu verkefnastjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá því í október 2009 og síðan var byggt á tillögu starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem hefur starfað frá því í apríl 2011. Þar áttu auðvitað sæti, eins og við vitum öll, fulltrúar hagsmunasamtaka eldri borgara og öryrkja, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins auk fulltrúa fimm stjórnmálaflokka.

Fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri vinnu er Guðmundur Einarsson og hefur hann þegar, áður en frumvarpið kom fram, meðal annars kynnt niðurstöðu þeirrar nefndar fyrir þingflokki Framsóknarflokksins. Ég verð að segja að heilt yfir er ýmislegt mjög jákvætt í málinu en það mun hins vegar verða gríðarlega kostnaðarsamt og ég kem inn á það á eftir.

Framsóknarflokkurinn hefur mjög skýra stefnu í þessum málum og ályktaði nýverið um þau á flokksþingi. Komið er inn á sumt af því í frumvarpinu og þar af leiðandi gætum við með góðu móti stutt sumar breytinganna. Í stefnu Framsóknarflokksins segir meðal annars að hefja eigi undirbúning vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar háaldraðra með því að greina áhrif þróunarinnar á samfélagið, hvaða tækifæri og viðfangsefni það skapi og hvernig eigi að bregðast við. Þar segir líka að stuðla eigi að sveigjanlegum starfslokum og lífeyristökualdri þannig að þekking og starfsreynsla ráði starfslokum í meira mæli en lífaldur. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt atriði.

Svo segir að aldraðir og hagsmunasamtök þeirra komi að ákvörðun um mál sem varða aldraða, svo sem fjárhag, aðstæður og umhverfi. Ég held að mikilvægt sé að við sameinumst líka um það. Þar segir að við eigum að koma upp einfaldara og sanngjarnara almannatryggingakerfi og að hætta verði að tengja lífeyrisgreiðslur við grunnlífeyri almannatrygginga þannig að þær hafi áhrif á ellilífeyri, heilbrigðis- og félagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Komið er inn á að við viljum gera öldruðum kleift að búa á eigin heimili eins lengi og kostur er, lögð skuli áhersla á kvöld-, nætur- og helgarþjónustu, dagvistunarúrræði og möguleika á skammtímadvöl. Leita skuli leiða til að mæta ólíkum búsetuþörfum aldraðra en efnahags- og heilsufarslegar aðstæður aldraðra geta verið mjög ólíkar svo bjóða þarf upp á fjölbreytt búsetuúrræði um leið og gætt er að efnahagslegu öryggi fólks. Það þarf að halda áfram endurnýjun með það að markmiði að öll hjúkrunarheimili séu einbýli og að fólk haldi fjárhagslegu sjálfstæði við dvöl á hjúkrunarheimili.

Við höfum séð fréttir af því að mikið áhyggjuefni er hvernig þeim málum er háttað. Skelfilegar fréttir berast af því að verið sé að aðskilja hjón þegar þau þurfa að flytja á hjúkrunarheimili eða annað þeirra þarf að flytja á hjúkrunarheimili. Það er eitthvað sem samfélagið allt á að taka á.

Við framsóknarmenn segjum brýnasta viðfangsefnið vera að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí árið 2009 verði afturkölluð, lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðinga þeirra á krepputímum og skerðing tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði verði afnumin í áföngum.

Það eru almenn viðmið og stefna Framsóknarflokksins í þeim málum. Svo við komum aftur að þessu máli hér er margt jákvætt í því. Við gerum okkur hins vegar líka grein fyrir því að þeir tímar sem við lifum á núna eru gríðarlega erfiðir og ekki aðeins fyrir þá aðila sem málið snertir, þá sem reiða sig á það sem fellur undir málið, félagslegan stuðning og lífeyrisréttindi almannatrygginga. Auðvitað er mikilvægt að við setjum það í samhengi við það sem margir hafa komið inn á. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að málið fer ekki gegn á þessu þingi þar sem einungis eru örfáir dagar eftir og ljóst að málið þarf gríðarlega mikla skoðun. Það er hins vegar athyglisvert að ef maður skoðar umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið er hún gríðarlega löng eða 14 blaðsíður.

Ég ætla að grípa aðeins niður í hana og fjalla svo betur um það á eftir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna bóta til ellilífeyrisþega mundu aukast strax á árunum 2013–2014 eða um 2–3 milljarða kr. Þegar ákvæði frumvarpsins væru að fullu komin til framkvæmda frá og með árinu 2017 er áætlað að árleg útgjaldaaukning muni nema 9–10 milljörðum kr. umfram áætlaða útgjaldaaukningu í núverandi kerfi. Gert er ráð fyrir að sú útgjaldaaukning umfram núverandi kerfi verði orðin um 20 milljarðar kr. árið 2040 eða sem nemur 65% af útgjöldum ársins 2012 og muni halda áfram að aukast eftir það.“

Það er auðvitað mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er fyrir ríkissjóð og að ef við ætlum að ráðast í aðgerðirnar, sem Framsóknarflokkurinn hefur vissulega tekið þátt í að móta og er fylgjandi, leitum við samhliða leiða og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að auka tekjurnar í samfélaginu.

Fjárlagaskrifstofan bendir síðan á, með leyfi herra forseta:

„Fjárlagaskrifstofa telur vandséð hvernig staðið verði í reynd undir þeirri auknu fjárþörf almannatryggingakerfisins sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins eigi jafnframt að framfylgja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum nema stjórnvöld verði reiðubúin til að skerða framlög til annarra málaflokka í sama mæli eða leggja á hærri skatta til tekjuöflunar.“

Það er hárrétt ábending. Ef við gefum okkur að vilji sé til að samþykkja málið í þinginu er mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvar eigi að ná í fjármagn til að setja í það. Eins og fjárlagaskrifstofan bendir á getur ekki verið markmiðið að við hættum þeirri vegferð að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem er grundvallaratriði, að ríkissjóður verði sjálfbær. Tvennt hlýtur að þurfa að koma til, breytt forgangsröðun, þ.e. að skerða framlög til annarra málaflokka í sama mæli, eins og bent er á, eða leggja á hærri skatta til tekjuöflunar. Ég held að þjóðfélagið geti ekki eins og sakir standa borið meiri skatta. Einstaklingar og fyrirtæki þessa lands geta ekki borið hærri skatta vegna þess að fólk á nægilega erfitt með að ná endum saman.

Ég held hins vegar að hægt sé að sækja ákveðið fjármagn með breyttri forgangsröðun og það er eitthvað sem við höfum talað fyrir í töluverðan tíma. Við töluðum meðal annars fyrir því við afgreiðslu síðustu fjárlaga að fjármagni yrði forgangsraðað með öðrum hætti og gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, eins og þau voru kölluð, yrðu látin bíða og fjármagninu fremur varið í málaflokka sem eru mikilvægir, rétt eins og staða aldraðra og lífeyrisþega í samfélaginu sem búa við gríðarlega bág kjör. Við getum heldur ekki horft fram hjá því að gífurlega mikilvægt er að auka verðmætasköpun í samfélaginu til að málið nái fram að ganga og breytingar verði gerðar í málaflokki aldraðra og lífeyrisþega, jákvæðar breytingar eins og þær sem ég las upp úr stefnu Framsóknarflokksins áðan. Framsóknarmenn hafa alltaf gert sér grein fyrir því að undirstaða velferðarkerfisins er öflugur vinnumarkaður og vöxtur í samfélaginu, vinnan tryggir velferðina.

Við verðum að einbeita okkur að því að byggja upp atvinnu í landinu. Nú stendur yfir aðalfundur Samtaka atvinnulífsins og bent var á í gær að það væri mögulegt, það eru gríðarleg sóknarfæri til að auka tekjur, skapa störf í landinu og þá koma aukatekjur í ríkissjóð. Það koma tekjur í ríkissjóð sem við getum meðal annars notað til að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum breytingum í málefnum aldraðra og lífeyrisþega og þeirra sem þurfa á stuðningi hins opinbera að halda. Við verðum nefnilega að tryggja stöðu þeirra hópa en líka gera okkur grein fyrir því hvar er hægt að ná í þá peninga. Það verður gert, eins og ég sagði, með breyttri forgangsröðun, með því að sækja fjármagnið til þátta sem ekki teljast til grundvallaratriða í samfélaginu og með því að auka umsvif hagkerfisins, efla atvinnu og ná fólkinu til baka sem er flutt til útlanda.

Ég heyrði um daginn af manni sem vinnur hjá fyrirtæki í Noregi og hjá því eina fyrirtæki, sem er rafvirkjafyrirtæki, starfa 70 rafvirkjar. Ef þeir einstaklingar væru allir á Íslandi og sköpuðu tekjur og umsvif fyrir íslenskt samfélag hefði ríkissjóður meira fjármagn á milli handanna til að veita til málaflokka á borð við þessa. Eins og ég hef komið inn á varðandi ákveðin atriði frumvarpsins er samhljómur í mörgum þátta þess og stefnu Framsóknarflokksins. Við viljum tryggja undirstöður velferðarkerfisins og viðurkennum mikilvægi öflugrar velferðar í landinu og að allir þjóðfélagshópar hafi öryggisnet þannig að allir geti lifað sómasamlegu lífi. Við erum hins vegar mjög ósátt við að það virðist algjörlega skorta skilning sitjandi ríkisstjórnar á því hvernig þeir fjármunir verða til, hvaðan þeir koma og hvað þarf að gera til að mögulegt sé að ráðast í framkvæmdirnar.

Þegar verið er að ræða þau mál finnst manni oft og tíðum eins og það sé svolítið holur hljómur í svona loforðum. Við sjáum ekki viljann, og höfum ekki séð hann allt þetta kjörtímabil, til að forgangsraða í þágu velferðar, þágu málefna aldraðra, þágu heilbrigðiskerfisins. Skorið hefur verið niður um yfir 20% á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á þessu kjörtímabili á meðan fjárveiting hefur aukist til annarra málaflokka, málaflokka sem ekki teljast til grundvallaratriða í velferðarkerfinu okkar. Það er þess vegna sem við verðum að forgangsraða öðruvísi og auka tekjur ríkissjóðs þannig að mögulegt sé að ráðast í svona framkvæmdir.

Ég held að það sé hárrétt sem margir hafa komið inn á að þetta er í raun og veru einhvers konar óskalisti sem er settur fram þarna og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins tekur undir það vegna þess að það er á engan hátt undirbyggt hvernig eigi að standa undir honum, hvernig eigi að ná í tekjurnar. Það vantar svo gríðarlega í alla stefnumótun. Framsóknarflokkurinn hefur fullan skilning á því, hann hefur fullan skilning á mikilvægi velferðarmálanna, mikilvægi þeirra mála er snerta málefni aldraðra og lífeyrisþega. Við höfum líka fullan skilning á því hvaðan tekjurnar þurfa að koma og hvernig við getum skapað tekjur og umsvif í hagkerfinu sem geta staðið undir öflugu velferðarkerfi okkar.

Ég hefði viljað sjá að samhliða þessum tillögum kæmu metnaðarfullar tillögur frá ríkisstjórninni um hvernig við eigum að skapa tekjur til að standa undir þeim. Eins og ég sagði áðan verða útgjöld ríkissjóðs vegna bóta til ellilífeyrisþega komin í 20 milljarða árið 2040, munu þegar á árunum 2013–2014 vera 2–3 milljarðar og árið 2017 verða þau komin í um 10 milljarða. Sá sem hér stendur sér ekki eftir fjármunum sem fara í þá málaflokka en við verðum að gera okkur grein fyrir því að peningarnir verða að vera til í samfélaginu. Við verðum að sækja þá fjármuni eitthvert, við verðum annaðhvort að forgangsraða með öðrum hætti eða leita leiða til þess að afla nýrra tekna. Við getum ekki náð inn þeim tekjum með aukinni skatttekju, ég held að þar séum við algjörlega komin í topp.

Virðulegi forseti. Niðurstaða mín er sú að við verðum að forgangsraða fjármunum öðruvísi og gera allt sem við getum til að auka tekjur í samfélaginu og auka tekjur ríkissjóðs. Þá verður hægt að koma í gegn metnaðarfullum breytingum, sumum þeirra sem eru í frumvarpinu og öðrum sem varða ýmislegt annað sem snýr að málefnum aldraðra, eins og ég rakti áðan í stefnu Framsóknarflokksins.