141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ákveðin atriði í málinu ríma mjög við stefnu Framsóknarflokksins varðandi þau mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að efnislega eru atriði í frumvarpinu sem eru jákvæð. Ég rakti meðal annars stefnu Framsóknarflokksins áðan og við áttum auðvitað fulltrúa í nefnd og síðan var byggt á því. Ég tek undir með hv. þingmanni að gríðarlega mikilvægt er að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og að við gerum okkur grein fyrir því sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis bendir á í umsögn sinni, að á engan hátt sé búið að undirbyggja hvaðan eigi að taka þetta fjármagn. Það mundi kosta okkur gríðarlegar fjárhæðir sem sá sem hér stendur sér ekki eftir að veita til þeirra mála en við verðum að gera okkur grein fyrir hvaðan fjármagnið á að koma. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að við ætlum að halda áætlun um að ná jöfnuði í ríkisfjármálin og það skortir töluvert upp á í dag.

Varðandi það ef Framsókn kemst til valda get ég sagt að við munum beita okkur fyrir því að forgangsröðuninni almennt verði breytt á þann veg að sótt verði fjármagn til ákveðinna þátta í ríkisrekstrinum sem ekki teljast nauðsynlegir og því fjármagni fremur varið í málefnin sem eru hluti af grunnstoðum samfélagsins. Við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að við verðum að afla þeirra tekna. Ég held að við verðum samhliða því að gera mjög ítarlega áætlun og marka okkur stefnu um hvernig við ætlum að forgangsraða, hvert við ætlum að sækja fjármagn og hvernig við ætlum að auka tekjur ríkissjóðs með aukinni atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í samfélaginu. Það verður að skoða. (Forseti hringir.)