141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög stórt og viðamikið mál, frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Málið var lagt fram á síðustu dögum þingsins og ljóst af ummælum þeirra sem sitja í ríkisstjórn að ætlunin er ekki að keyra málið í gegn á nokkrum dögum, alla vega skil ég það svo sem er ágætt. Ég tel rétt að við höldum því til haga að ef menn ætla að leggja fram mál sem þetta verður að vera einhver tími til að vinna það í þinginu. Svo er ekki í þessu tilfelli. Þrátt fyrir að málið hafi verið undirbúið vel, tekið langan tíma í undirbúningi og fulltrúar allra flokka hafi komið að undirbúningi þessar stóru og viðamiklu breytingar á almannatryggingakerfinu, breytir það ekki þeim mikilvæga þætti að málið þarf mikla umfjöllun í þinginu. Við þurfum að fá vandaðar umsagnir, þurfum að gefa okkur tíma til að setjast aftur yfir málið, velta við öllum steinum og athuga hvort þetta sé leiðin sem er rétt að fara.

Herra forseti. Ég er sammála meginsjónarmiðunum sem liggja að baki frumvarpinu, þ.e. að lögð er áhersla á að kveða skýrt á um réttindi og skyldur hinna tryggðu sem uppfylla skilyrði samkvæmt frumvarpinu, sem og málsmeðferð og stjórnsýslu. Stefnt er að því að ný lög verði einfaldari, skýrari og gagnsærri en gildandi lög hvað það varðar. Þær breytingar eru nauðsynlegar.

Það stendur til að einfalda löggjöfina þannig að lífeyristryggingakerfi almannatrygginga verði gagnsærra fyrir notendur. Það er lykilatriði varðandi breytingarnar sem fram undan eru, og verða vonandi að veruleika á næsta kjörtímabili, að kerfið verði þannig að þeir sem nýta sér þjónustuna skilji út á hvað hún gengur.

Ég hef verið svo lánsöm í störfum mínum að hitta fullt af fólki, m.a. eldri borgara sem eiga rétt á að fá greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Ég verð að segja, herra forseti, að kerfið er hvorki skýrt né einfalt og að markmiðið sem var farið af stað með í því viðamikla starfi sem liggur að baki frumvarpinu er gott. Skýrt hlutverk almannatrygginga, skýr uppbygging og framsetning laganna er nauðsynlegt til að fólk átti sig betur á því hver réttindi þess eru og við hverju það má búast á efri árum þegar það treystir á stuðning tryggingakerfisins.

Það kemur fram í gögnum málsins að umboðsmaður Alþingis hefur bent á að vegna misjafnrar heilsufarslegrar og félagslegrar stöðu lífeyrisþega sé sérstaklega brýnt að ákvæði laga um réttindi þeirra séu skýr. Það er augljóst mál. Það er skylda okkar sem störfum við setningu laga að sjá til þess að fyrir hendi séu almennar, aðgengilegar og skýrar reglur um þá aðstoð og þau réttindi sem einstaklingar eiga rétt á vegna hás aldurs eða annarra atriða, svo sem fötlunar o.s.frv., hvort sem sú aðstoð er í formi þjónustu, umönnunar eða peninga. Markmiðið er gott og ég vonast til að við öll hér inni náum að halda okkur á þeirri braut á næsta kjörtímabili.

Hins vegar er alveg ljóst að til að fara með svo viðamiklar breytingar í gegnum þingið og til að hægt sé að ræða málið af einhverri alvöru þarf að liggja fyrir hvernig á að fjármagna breytingarnar sem er verið að leggja til. Helsti galli málsins er að það hefur ekki verið klárað í þann endann. Það er svolítið eins og að ráðherrann hafi verið að flýta sér að reyna að koma málinu inn til að vera sá sem lagði frumvarpið fram, sem er svo sem skiljanlegt, þar sem það kemur fram nokkrum dögum áður en þessu kjörtímabili lýkur og án þess að vinnan varðandi fjármagnshliðina hafi verið kláruð.

Það er mjög athyglivert að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Menn þar á bæ, eins og flestallir sem hafa talað hér, eru ánægðir með það markmið frumvarpsins að einfalda núverandi lagaumhverfi með því að sameina ákvæði um lífeyrisréttindi og félagslega aðstoð í ein ný heildarlög. Um er að ræða stærstu kerfislægu útgjöld hins opinbera og því er ekki hægt að horfa fram hjá því þegar verið er að taka ákvarðanir um efnislegt inntak slíkra reglna að fyrst og fremst þarf að fara yfir hvort ríkið standi fjárhagslega undir því réttindakerfi sem er verið að setja á fót. Annars er verið að gefa fólki falsvonir um bætta lagaumgjörð og bætt réttindi án innstæðu. Ég hefði viljað að farið hefði verið dýpra í þá vinnu og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu sýnt okkur hvernig þeir ætla að fjármagna breytingarnar.

Herra forseti. Fjölmargir þingmenn, þar á meðal fulltrúar okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefndinni, hafa farið yfir hinar fjárhagslegu forsendur og það hvernig við sjálfstæðismenn hugsum um fjármál ríkisins og hvernig við forgangsröðum varðandi heilbrigðismálin, hin félagslegu réttindi. Ég tel að það hafi komið nægilega skýrt fram. Við teljum að hægt sé að gera betur í rekstri ríkisins og að þegar við höfum náð tökum á rekstri ríkissjóðs, sem er grundvallaratriðið, getum við farið að laga til í almannatryggingakerfinu og við ætlum okkur að gera það.

Samkvæmt stefnu okkar teljum við rétt að halda vel utan um almannatryggingakerfið og endurskoða það í heild sinni. Við viljum tryggja þeim sem á þurfa að halda lágmarkstekjur til lífsviðurværis. Við viljum jafnframt að ekki sé dregið úr hvata fólks til að bjarga sér sjálft og ekki sé dregið úr fólki ef það vill vinna, þ.e. að ekki sé dregið úr möguleikum aldraðra og öryrkja til að bæta kjör sín. Við teljum rétt að leggja áherslu á að aldraðir sem eru á dvalarheimilum haldi sínu fjárhagslega sjálfstæði, þeir haldi reisn sinni og sjálfsvirðingu. Við teljum einnig rétt að sú kjaraskerðing sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009 verði afturkölluð og leggjum áherslu á það.

Auk þess teljum við nauðsynlegt, í samvinnu við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins, að finna leiðir til að gera öldruðum mögulegt að vera lengur á vinnumarkaði til að auka lífsgæði þeirra. Fólk sem vill vinna á að geta gert það, þrátt fyrir að hér sé almannatryggingakerfi, og með því haldið lífsgleði sinni og reisn.

Herra forseti. Það er meginmarkmið með frumvarpinu að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu. Með því að gera reglurnar einfaldari og kerfið skýrara en það er í dag byggjum við upp sterkara samfélag. Ég fagna því að sú vinna sé komin á blað.

Skipuð var verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga í október 2007 og á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn. Þeirri verkefnisstjórn var falið að vinna heildstæðar tillögur um eðlilegar fyrstu aðgerðir, langtímastefnumótun og nauðsynlegar lagabreytingar til að ná því markmiði. Verkefnisstjórnin útfærði starf sitt á þann hátt að kanna hvaða breytingar væru nauðsynlegar á lífeyriskerfi almannatrygginga, leggja fram róttæka tillögu um einföldun kerfisins, ná fram meiri sanngirni á samspili tryggingabóta, lífeyrissjóðstekna og atvinnutekna, ná fram meiri hvata til öflunar atvinnutekna og sparnaðar hjá bótaþegum en áður, sem rímar afskaplega vel við stefnu Sjálfstæðisflokksins sem við höfum haft og munum hafa og höfum enn í dag, koma á lágmarksframfærslutryggingu, færa örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfið í átt að virkari velferðarstefnu með nýju starfsgetumati og virkari þátttöku í endurhæfingu ásamt aukinni eftirfylgni og að leggja línur fyrir framtíðarþróun opinbera lífeyriskerfisins og stofnunarskipan á sviði þess.

Það vekur athygli að útfærslan á því hefur ekki verið kláruð. Auðvitað tekur allt sinn tíma en útfærslan á því hvernig á að breyta matinu sem nú er kallað örorkumat yfir í það að meta starfsgetu hefur ekki verið kláruð. Hugmyndafræðin snýst um að hætta að tala um hvað fólk getur ekki og meta frekar það sem fólk getur. Það er hugmyndafræði sem mér hugnast vel og hugnast sjálfstæðismönnum almennt mjög vel. Ég vonast til að klárað verði að vinna þau mál og settur kraftur í það á komandi kjörtímabili vegna þess að það rímar afskaplega vel við það íslenska hugarfar að fólk bjargi sér sjálft. Sama hvort fólk er öryrkjar eða aldrað vill það leggja sitt af mörkum. Það á frekar að tala um hvað fólk getur en það sem fólk getur ekki, það er það sem koma skal.

Fjallað er um tillögur verkefnisstjórnar um einföldun almannatryggingakerfisins og að einföldunin yrði falin í því að bæði greiðslur almannatrygginga og allir þættir lágmarksframfærslu yrðu greiddir af Tryggingastofnun ríkisins. Lögð var til notkun frítekjumarka og að innleitt yrði frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega í áföngum.

Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá því 2009 kemur fram sú framtíðarsýn að kerfisbreytingin geti átt sér stað sem fyrst án umtalsverðra útgjalda. Meiri kjarabætur komi til síðar þegar dragi úr áhrifum fjármálakreppunnar. Í niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar er lagt til að gera það í áföngum og að reyna að gera það á hraða sem ríkissjóður ræður við. Ég held að við sjáum það öll í hendi okkar að auðvitað þarf að gera það. Við getum ekki skuldbundið ríkissjóð þannig að hann ráði ekki við það til framtíðar. Ég vona svo sannarlega að enginn hér inni sé á þeirri línu.

Áfram er unnið eftir þeirri hugmyndafræði að endurskoðunin fari fram á grundvelli núverandi tryggingakerfis, þ.e. hinu svokallaða tveggja stoða kerfi þar sem einstaklingar á vinnumarkaði greiða í og safna upp réttindum í lífeyrissjóðakerfi, en síðan komi sem hin seinni stoð til og almannatryggingarnar veiti þeim sem á þurfa að halda lágmarkstryggingavernd til viðbótar. Byggt hefur verið því kerfi en meginmarkmiðið er að einfalda það þannig að alveg ljóst sé hvora stoðina fólk þarf. Það á líka að vera algjörlega ljóst að það hafi eitthvað upp á sig að greiða í lífeyrissjóð, það komi ekki út á jöfnu eins og við sjáum í dag eftir breytingarnar sem hafa verið gerðar á kerfinu þar sem ekki skiptir nokkru máli hvort fólk hefur greitt í lífeyrissjóð eða ekki. Að sjálfsögðu á það ekki að vera svona.

Starfshópur var skipaður 4. apríl 2011 til að klára þá vinnu sem verkefnisstjórnin hafði lagt grunn að. Í erindisbréfi starfshópsins kemur fram að meginhlutverk hans hafi verið að gera tillögur um leiðir og ljúka við drög að nýju frumvarpi til laga um lífeyristryggingar. Frumvarpið sem liggur fyrir er afrakstur þeirrar vinnu. Starfshópurinn samþykkti tillögu um einföldun bótakerfisins í júní 2012 og í október var ein breyting á tillögunni samþykkt. Í rauninni er hægt að segja að hópurinn hafi skilað endanlega af sér í október.

Hópurinn var í rauninni sammála verkefnisstjórninni og menn einsettu sér að fylgja markmiðinu um að gera kerfið einfaldara og réttlátara. Starfshópurinn gerði tillögu um að sú leið yrði farin að einfalda og auka gagnsæi sem fælist í fækkun bótaflokka og skerðingarhlutfalla gagnvart tekjum. Mesta einföldunin og gagnsæið næst með því að sameina alla bótaflokka í einn og hafa eitt skerðingarhlutfall gagnvart tekjum og ekkert frítekjumark. Ég tel að ef við náum því marki að lögfesta slík ákvæði í okkar löggjöf verðum við loksins með kerfi sem er skýrt (Forseti hringir.) og einfalt og til þess fallið að allir þeir sem þurfa á því að halda skilji hver réttindi þeirra eru.