141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt að standa í þessum sporum þegar einungis örfáir dagar eru eftir af þinginu. Áætlað er að þinglok verði 15. mars. Heilt kjörtímabil er liðið án þess að ríkisstjórnin hafi sinnt þessum málaflokki, lítið sem ekkert sinnt eldri borgurum og öryrkjum, þar til nú þar sem klóra á yfir sín eigin verk með því að koma með frumvarp til 1. umr. á lokadögum þingsins.

Ekki er hægt að ræða þetta frumvarp öðruvísi en að minnast á að hæstv. forsætisráðherra hafði ekki verið forsætisráðherra lengi, ekki nema örfáar vikur, þegar hafist var handa við að skerða kjör þessara hópa. 1. júlí 2009 voru sett lög af meiri hlutanum sem heimiluðu ríkinu að frysta greiðslur til lífeyrisþega. Þau lög gengu út á það að tekin var af hækkun þessara bótaflokka samkvæmt neysluverðsvísitölu. Á árinu 2009 var ruðst inn í grunnlífeyri þessara einstaklinga sem ég hef alla tíð haldið að væri heilagur hverjum manni, að ekki væri hægt að skerða hann því að þetta er grunnlífeyrir. En það var gert af hinni norrænu velferðarríkisstjórn sem kallar sig svo, og ekki nóg með það heldur af málsvara þessa hóps allt þar til málsvarinn varð ráðherra. Við sem höfum fylgst með í stjórnmálum vitum að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, barðist mjög fyrir réttindum eldri borgara og öryrkja þegar hún var almennur þingmaður. Hún hefur nú setið á þingi óslitið í rúm 30 ár. Þess vegna kom mjög á óvart að þetta skyldi hafa verið gert með þeirri lagasetningu. Því skal haldið til haga að þegar þau lög voru keyrð í gegnum þingið í mikilli andstöðu hjá þingmönnum Framsóknarflokksins var sagt að þetta yrði einungis tímabundin lækkun og að eldri borgarar og öryrkjar þyrftu að taka sinn skerf af hruninu.

Nú erum við komin fram í mars árið 2013 og ekkert bólar á að afnema eigi þau lög sem sett voru til skerðingar bóta til þessara einstaklinga heldur er lagt fram heildstætt frumvarp þar sem er raunverulega verið að lýsa framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar.

Við skulum átta okkur á því að frumvarp þetta byggir á vinnu nefndar sem var þverpólitísk. Framsóknarflokkurinn átti sinn fulltrúa í þeirri nefnd en til að sýna vilja sinn og vald átti hver flokkur í stjórnarandstöðu einungis einn fulltrúa en Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin áttu tvo fulltrúa hvor flokkur til að halda meiri hlutanum í nefndinni. Eins og fram hefur komið er mjög einkennilegt að frumvarpið skuli lagt fram á lokadögum þingsins. Lít ég svo á að hér sé frekar verið að leggja fram stefnumarkandi framtíðarsýn ríkisstjórnarflokkanna heldur en nokkurn tíma það að þeir flokkar hafi ætlað að gera raunverulega eitthvað fyrir þennan hóp til að endurheimta eða færa til baka þá lagasetningu þegar ruðst var til atlögu við þá bótaflokka hjá þessum einstaklingum.

Virðulegi forseti. Hver hefði trúað því upp á heilaga Jóhönnu að óreyndu að þegar hún kæmist loksins til valda mundi hún beita sér svo hart gagnvart þeim hópum. En eins og við vitum hafa vinstri menn sjaldnast kunnað að forgangsraða. Vinstri menn kunna alls ekki að forgangsraða í ríkisrekstri. Það hefur sannarlega komið fram á þessu kjörtímabili að skorið er niður þar sem síst skyldi en fjármagni ríkisins eytt í alls konar verkefni sem eru í raun óþörf og eru það sem í daglegu tali kallast gæluverkefni.

Ég verð að taka sem dæmi vonlausa Evrópusambandsumsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem hefur kostað skattgreiðendur fleiri tugi milljóna. Það er farið að slá í rúman milljarð, opinberar tölur varðandi það, fyrir utan allan dulinn kostnað. Um helgina fóru nýkjörnir formenn ríkisstjórnarflokkanna fram með það að hið svokallaða frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem byggðist á tillögu stjórnlagaráðs yrði slegið út af borðinu. Það hefur kostað skattgreiðendur 1.500 milljónir. Mikið fjármagn og orka hefur farið til spillis á þessu kjörtímabili sem hefði betur verið notað til annarra hluta. Ég nefni til dæmis það mál sem við ræðum í dag, að hlífa fyrrnefndum hópi við þessum skerðingum, svo að við tölum nú ekki um tækjakaupin á Landspítalanum og heilbrigðisþjónustu úti á landi.

Þetta mál verður ekki rætt öðruvísi en í samhengi við lífeyrissjóðina, við þær lífeyrissjóðsgreiðslur sem einstaklingar reiða af hendi, þeir sem eru á vinnumarkaðnum, bæði á hinum opinbera og almenna vinnumarkaði.

Hægt og sígandi í gegnum tíðina höfðu lífeyrisþegar og öryrkjar náð fram ákveðnum réttarbótum meðal annars með aðstoð dómstóla. Við vitum og munum öll eftir öryrkjadómnum svokallaða þar sem skilið var á milli þess að fatlaður eða öryrki mundi þurfa að taka tekjur á grunni tekna maka síns, skorið var þar á milli. Það voru miklar réttarbætur sem sá hópur fékk einmitt við öryrkjadóminn. Einnig má nefna að þessi hópur hefur náð með samningum við ríkið afnámi tekjutengingar við tekjur maka og lækkun skerðingarhlutfalla, hækkun frítekjumarka vegna atvinnu og lífeyristekna, og svo er rétt að minnast á tilkomu uppbótarinnar vegna framfærslu. Hefur réttilega komið í ljós að árangur hefur orðið á þessu sviði í réttarbótum og lífskjörum fyrir þennan hóp. Þessi mál voru komin í ágætt horf, skulum við segja, þegar sú ákvörðun var tekin að skerða þessa aðila af ríkisstjórninni. Sú skerðing verður ekki sjáanleg meðan núverandi ríkisstjórn starfar því að kosningar eru í nánd sem betur fer.

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að nú sem oft áður sé verið að eyða tíma þingsins í að ræða þetta mál því það er svo umfangsmikið, telur tæpar 100 blaðsíður. Málið er að koma til 1. umr. Það á eftir að fara til hæstv. velferðarnefndar og kalla eftir umsögnum frá aðilum inn til nefndarinnar, venjulegur tími er hálfur mánuður, og nefndin á þá eftir að fjalla um það áður en það kemst til 2. umr. Oft eru svona stór og þung mál sem hafa mikinn útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkið kölluð til nefnda á milli 2. og 3. umr., og svo fyrir rest kemur málið í 3. umr. og þá er fyrst í augsýn hægt að gera málið að lögum.

Þess vegna tel ég það að taka ákvörðun um að leggja málið fram í dag, 7. mars, þegar áætluð þinglok eru 15. mars vera eingöngu til þess fallið að búa til páskaskraut eða gluggaskraut fyrir vinstri flokkana í næstu kosningabaráttu. Þetta er til þess gert að geta veifað því í kosningabaráttunni og sýnt það að þau hafi víst unnið að því að leiðrétta kjör þessara hópa. En, virðulegi forseti, landsmenn láta ekki lengur blekkjast af gylliboðum ríkisstjórnarinnar.

Það sjá allir að frumvarpið nær því ekki á þessu þingi að verða að lögum. Þess vegna er það viðfangsefni næstu ríkisstjórnar að taka á þessum málum, þeirra aðila sem verða kosnir til þess í næstu alþingiskosningum að koma fram á sjónarsviðið og mynda hugmyndir sínar um hvernig hægt er að breyta því kerfi sem vinstri flokkarnir rústuðu í rauninni upphaflega í byrjun júlí 2009 og héldu svo áfram að kroppa af eldri borgurum og öryrkjum þær fáu krónur sem þeir þó voru búnir að ná fram með réttindabaráttu sinni.

Það er sorglegt að sjá að til þingsins komi mál eftir mál sem eru svona vaxin, sem eru raunverulega stefnumarkandi fyrir komandi kjörtímabil. Vinstri menn eru að leggja einhverjar vörður fyrir næsta kjörtímabil. Eins og flestir vita hafa skoðanakannanir síðustu mánaða sýnt að þeir verði alls ekki í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, alla vega ekki sá meiri hluti sem nú situr. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur gert. Við munum eftir 20/20 þingsályktunartillögunni og græna hagkerfinu. Við munum eftir fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem öll framkvæmdin á raunverulega að koma fram á næsta kjörtímabili. Það er mjög óeðlilegt að ríkisstjórn vinni að þessu svona, geti og ætli sér að skuldbinda næstu stjórnvöld til þess að framfylgja sinni stefnu sem var gerð á síðasta kjörtímabili, enda hefur það komið margsinnis fram í umræðum í þinginu. Við getum nefnt rammaáætlun, hún verður tekin upp strax að kosningum loknum og henni breytt í þá sáttaátt sem búið var að ná á 14 ára ferli, breytt í þá átt eins og upp var lagt með. Vinstri slagsíðan verður tekin út úr þeirri áætlun, þeim sáttafarvegi verður komið á aftur.

Það er eins og ríkisstjórnin átti sig ekki á því að þau voru kosin einungis til fjögurra ára, hafa hangið á stólunum þau fjögur ár þrátt fyrir að vera orðin fyrir löngu minnihlutastjórnvöld, og þrátt fyrir að ná ekki málum í gegnum þingið, en þau sitja samt áfram. Þess vegna hefði verið farsælt að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefði boðað til kosninga fyrr á kjörtímabilinu. En ekki á bara að sitja í stólunum sem fastast til 27. apríl, heldur á að skuldbinda stjórnvöld til framtíðar með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að meginmarkmiðið með frumvarpinu sé „að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu, meðal annars með því að gera lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og tengdar greiðslur einfaldari og skýrari heldur en búið er við í dag.

Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af tillögum sem fram komu í skýrslu verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá því í október 2009 um nýskipan almannatrygginga og byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem starfað hefur frá því í apríl 2011 að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar.

Ég set mig ekki á móti þessu, því það var alveg orðið tímabært að skoða þennan málaflokk, skoða löggjöfina. Ég set mig ekki á móti vinnu þessa starfshóps enda vann starfshópurinn mikið og gott verk. Það sem er brýnast nú um mundir er það sem þessi hópur hefur verið að kalla eftir síðan 1. júlí 2009, þ.e. að fá réttar bætur eins og allur annar almenningur í landinu, að fá leiðrétta þá vísitöluskerðingu sem hópurinn varð fyrir við lagasetninguna og jafnframt það að færa til baka þær skerðingar, upphæðir sem um er að ræða — þá er ég að vísa í það sem kallað er króna á móti krónu þar sem lífeyrissjóðsgreiðslur eru skertar svo mikið að aðili sem hefur unnið allt sitt líf á vinnumarkaði og hefur borgað í lífeyrissjóð ber það sama úr býtum og aðili sem hefur ekki stundað vinnu og er að fá grunnbætur frá ríkinu. Þetta er óásættanlegt. Þess vegna spyrja margir hvers vegna það sé yfir höfuð í lögum skylda að borga í lífeyrissjóð.

Það er ekki einasta að verið sé að rústa afkomu aldraðra og öryrkja, heldur er með þeim skattpíningarleiðum sem ríkisstjórnin hefur farið á þessu kjörtímabili líka verið að rústa lífeyrissjóðakerfinu. Þegar fólk stendur frammi fyrir því mikla óréttlæti sem slíkar skattahækkanir leiddu af sér spyr fólk: Til hvers eru lífeyrissjóðir?

Þetta hefur víðtæk áhrif, virðulegi forseti. Þetta er sanngirnismál. Það er sanngirnismál að þessir hópar (Forseti hringir.) fái fyrst leiðréttingar að einhverjum hluta eða öllu leyti áður en er farið að krukka í það að semja ný lög sem eiga ekki að (Forseti hringir.) taka gildi fyrr en á árinu 2014 og fram til 2017. Ég lýk máli mínu.