141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kemur hv. þingmaður einmitt inn á mikilvægan punkt sem ég ræddi í minni ræðu, þann að þeir einstaklingar sem hér um ræðir eru einmitt einstaklingar en við eigum það til að tala um aldraða sem hóp. Í staðinn fyrir að leggja áherslu á að hækka eftirlaunaaldurinn ættum við að einbeita okkur að sveigjanlegum starfslokum, að gera fólki kleift að vinna lengur ef það vill það og hefur til þess fulla starfsorku. Þeir sem eru núna að verða gamlir á pappírunum eru svo margir í fullu fjöri, með fulla starfsorku, og vilja og geta lagt til samfélagsins með vinnu en gera það ekki núna vegna þess að það skerðir þann lífeyri sem þeir hafa líka unnið fyrir með vinnu sinni í gegnum tíðina.

Ég held að við ættum ekki að hugsa þetta út frá einhverri hækkun heldur út frá sveigjanleikanum. Þá þarf líka að gera annað, það þarf að skapa störf. Það er ekki nóg að segja: Fínt, þeir sem vilja geta unnið hér fram eftir öllu, ef það eru ekki til störf fyrir alla. Það þarf að huga að því líka að koma hjólum atvinnulífsins í gang, skapa störf og gera það að verkum að eldri kynslóðin þurfi ekki að rýma til fyrir þeirri nýju ef hún kýs að vera áfram í vinnu.

Ég held að kynslóð okkar hv. þingmanns eigi eftir að lenda illilega í því ef við förum ekki að huga að einhvers konar breytingum. Ég batt til dæmis miklar vonir við séreignarsparnaðinn vegna þess að okkar kynslóð er orðin vön ákveðnum lífsstíl. Ég held að það verði mjög harður raunveruleiki (Forseti hringir.) fyrir okkur ef við þurfum að taka á okkur jafnmikla tekjuskerðingu og við erum að horfa á núna (Forseti hringir.) sem er óumflýjanlegt vegna þess hversu fáir verða eftir til þess að standa undir (Forseti hringir.) okkar velferð.