141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir málið, þar kom margt fróðlegt fram. Ég vil benda á að ég hef í tvígang flutt frumvarp um að ellilífeyrisaldurinn verði hækkaður, að ekki verði miðað við 67 ár eins og nú er gert ráð fyrir heldur verði starfslok sveigjanleg. En ég ætlaði nú ekki að spyrja að því heldur ætlaði ég að spyrja hv. þingmann um þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar skerðingu.

Samkvæmt frumvarpinu og samkvæmt núgildandi lögum eru tekjur úr lífeyrissjóði til frádráttar, tekjur vegna vinnu og einnig fjármagnstekjur. Nú liggja 70% af sparifé landsmanna inni á óverðtryggðum reikningum sem bera neikvæða vexti — í 4–5% verðbólgu heyrir það til undantekninga að vextir nái verðbólgustiginu og eiginlega langt fyrir neðan á flestum innlánsreikningum — og svo er það skattað. Neikvæðar tekjur eru skattlagðar og þær koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum í frumvarpinu.

Finnst hv. þingmanni eðlilegt að neikvæðar tekjur, sem eru sannarlega neikvæðar, innstæðurnar ná ekki ávöxtun miðað við verðlag — ef maður leggur fyrir andvirði eins bíls á maður ekki andvirði eins bíls eftir árið, maður tapar á því að hafa lagt til hliðar. Finnst hv. þingmanni þetta eðlilegt? Á sama tíma koma bætur frá Tryggingastofnun — ég veit ekki hvort hv. þingmaður veit það — ekki sem tekjur. Sá sem skúrar í hverjum mánuði fyrir 50 þús. kr., það kemur til frádráttar, sá sem fær vexti af innstæðum upp á 50 þús. kr., það kemur líka til frádráttar en sá sem fær bætur frá Tryggingastofnun upp á 50 þús. kr., þá er það ekki til frádráttar. Finnst hv. þingmanni þetta eðlilegt?