141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Til þess að grípa boltann frá hv. þm. Illuga Gunnarssyni vil ég segja að ég tek undir það sem hann sagði um hagvöxt og framleiðni sem forsendu þess að hægt sé að gera betur á sviðum sem þeim. Það gleymist nefnilega oft þegar rætt er um atvinnusköpun, aukna framleiðni, aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu, að það er undirstaða þess að hægt sé að gera betur á sviði almannatrygginga, svo dæmi sé tekið. Hið sama á við um stóra útgjaldaliði hins opinbera, hvort sem við erum að tala þar um heilbrigðismál, menntamál eða annað þess háttar. Þess vegna eru fögur og jákvæð markmið á sviði útgjaldamála, velferðarmála í breiðum skilningi, ekki mikils virði ef ekki er á sama tíma unnið að því að afla nauðsynlegs fjár til þess að standa undir þeim breytingum sem að er stefnt.

Að þessu sögðu vil ég nefna það að frumvarpið sem hér er lagt fram og hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson hefur mælt fyrir í dag er á margan hátt jákvætt. Í því er margt sem taka má undir. Ég álít margt í því jákvætt innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað um þessi mál. Á sama tíma hlýt ég að taka undir áhyggjur þeirra sem í þessari umræðu hafa nefnt það að erfitt kunni að vera að standa undir þeim kostnaði sem því kann að fylgja.

Eins og nefnt hefur verið í umræðunni er þetta mál nýframkomið og hér tekið til umræðu í þinginu á lokadögum þess þannig að þess er auðvitað ekki að vænta að unnt verði að klára það. Hér er um að ræða afar stórt mál, viðamikið og víðtækt. Jafnvel þó að undirbúningur og aðdragandi málsins hafi verið langur gefur það okkur ekki tilefni til þess að slá neitt slöku við þegar kemur að málsmeðferð í þinginu. Hér er um að ræða mál sem bæði sú nefnd sem fær þetta, velferðarnefnd, og aðrir þingmenn þurfa að gaumgæfa. Raunsætt mat er að ekki verður hægt að ljúka þessu máli fyrir lok þings en það að hæstv. ráðherra leggur málið fram gefur kost á því að kalla eftir viðbrögðum við því.

Þó að gagnrýna megi að málið skuli ekki hafa komið fram fyrr má þó segja að það sé að minnsta kosti betra að hæstv. ráðherra skili málinu af sér, þannig að þá liggi fyrir einhver niðurstaða í þessu máli, en ekki. Eins og hér hefur verið rakið á málið sér langa forsögu, á sér rætur í stefnumörkun árið 2007 og starfshópi sem þá var fyrst settur á stofn þó að hann hafi tekið breytingum síðan, og á auðvitað rætur í vilja flestra flokka á þingi, að ég hygg, til að taka almannatryggingakerfið til endurskoðunar.

Almannatryggingakerfið er gríðarlega mikilvægur liður í samfélaginu. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir tugi þúsunda í landinu, en hér er auðvitað líka um að ræða einn af stærri útgjaldaþáttum ríkissjóðs þannig að allar breytingar á þessu sviði eru veigamiklar, hafa áhrif á marga og skipta miklu máli, bæði fyrir þá sem hafa beina hagsmuni af því en ekki síður afkomu ríkissjóðs í heild.

Meginmarkmið frumvarpsins snúa að því að einfalda löggjöfina sem almannatryggingakerfið byggir á. Það má velta fyrir sér að hve miklu marki það markmið hefur náðst. Mér sýnist í fljótu bragði að hér sé um að ræða einföldun frá því kerfi sem við búum við í dag en hins vegar má deila um hvort hægt hefði verið að ganga lengra í einföldunarátt til að auka skýrleika kerfisins, auka gagnsæi þess enn þá frekar. Ég ætla ekki að rekja það í löngu máli, en hv. þingmenn þekkja auðvitað að almannatryggingakerfið hefur virkað sem hálfgerður frumskógur á marga sem til þess hafa leitað. Hvort sem um er að ræða aldraða, öryrkja eða aðra sem eiga mikið undir þessu kerfi hefur verið óskaplega erfitt fyrir fólk að átta sig á því, bæði hvaða réttinda það nýtur og hvernig breytingar sem verða hafa áhrif á aðra þætti. Við þekkjum dæmi um það að skattbreytingar, breytingar á frádráttarliðum og annað þess háttar hafa haft áhrif, í sumum tilvikum áhrif sem þeir sem í hlut eiga eiga erfitt með að sjá fyrir. Það hefur eðli málsins samkvæmt kallað fram mikla óánægju með marga þætti í kerfinu. Það verður að virða það sem er markmið frumvarpsins, að gera þetta skýrara og einfaldara, en ég hlýt engu að síður að varpa fram þeirri spurningu án þess að geta svarað henni á þessari stundu hvort hægt hefði verið að ganga lengra í þeim efnum, þ.e. auka skýrleikann og minnka flækjustigið enn frekar. Ég hef sjálfur ekki á reiðum höndum svörin við því en varpa því sjónarmiði inn í umræðuna.

Ég veit að ýmsir þingmenn hafa áður nefnt hugmyndir um hvort hægt væri að ganga lengra í að einfalda bótakerfið með það að markmiði að gera það skýrara en um leið hugsanlega með það að markmiði að tryggja að fjármunirnir sem varið er í þennan málaflokk nýtist betur.

Það er jákvætt sem líka er sett fram sem markmið í frumvarpinu, að draga úr skerðingum sem fylgja núgildandi kerfi og hafa aukist á síðustu árum. Ég held að það sé jákvætt skref, ég held að það sé til dæmis stór hluti þeirra sem fá greiddan ellilífeyri að þar hefur verið mikil óánægja vegna skerðinga sem hafa verið fyrir hendi og hafa aukist á síðustu árum. Ég held að það sé réttlætismál að koma til móts við það. Hins vegar verð ég, eins og fleiri hafa gert í þessari umræðu, að velta því upp hvort allar þær breytingar sem gert er ráð fyrir í kerfinu, miðað við þetta frumvarp, séu raunhæfar í samhengi ríkisfjármálanna. Það blasir við að það er ósamræmi milli þessa frumvarps og þeirra áætlana sem það byggir á um útgjöld á komandi árum og þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í ríkisfjármálum. Þarna er um að ræða áhyggjuefni sem nauðsynlegt er að farið verði yfir áður en málsmeðferðinni lýkur.

Það er jákvætt og gott að setja fram markmið sem byggja á réttlæti og sanngirni og bættum kjörum þeirra sem í hlut eiga, en slík stefnumörkun er auðvitað ekki mikils virði ef menn hafa ekki jafnframt áætlanir um það hvernig á að standa undir því.

Ég vísa, hæstv. forseti, til viðvörunarorða í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um málið þar sem vakin er athygli á því ósamræmi sem er milli frumvarpsins og langtímastefnumótunar í ríkisfjármálum. Það er alveg klárt að ef ætlunin er að hrinda frumvarpinu í framkvæmd með þeim hætti sem það er hér lagt fram þurfa að verða töluvert miklar breytingar til bóta á vettvangi ríkisfjármálanna þannig að unnt verði að standa straum af þeim auknu útgjöldum sem hér fylgja.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vildi ég líka nefna það að ef við horfum fram í tímann varðandi það svið sem hér er til umræðu er ég kannski helst að horfa á þann þátt sem lýtur að greiðslu eftirlauna úr almannatryggingum, greiðslum til aldraðra. Þar er fyrirsjáanleg töluvert mikil útgjaldaaukning á komandi árum, enda benda allar tölur og staðreyndir til þess að öldruðum muni fjölga mjög á komandi árum sem í sjálfu sér er jákvæð þróun og til marks um bætta heilsu. Það kemur til af góðu og engin ástæða til annars en að taka það fram. Hins vegar er ljóst að að óbreyttu mun það leiða til töluvert miklu meiri kostnaðar, bæði vegna beinna greiðslna til aldraðra og eins annars kostnaðar sem fylgir hækkandi aldri. Þá er ég líka með í huga aðra hlið málsins, ef svo má segja, þann kostnað sem fellur til í heilbrigðiskerfinu. Við gerum okkur grein fyrir því að með hækkandi aldri fólks, með fjölgun í hópi aldraðra, eykst kostnaður í heilbrigðiskerfinu til mikilla muna þannig að við sjáum fram á það eins og staðan er núna að það er ekki bara á hlið almannatrygginganna eða eftirlaunagreiðslna sem kostnaður mun aukast á komandi árum heldur líka annar kostnaður, eins og heilbrigðiskostnaður þar sem fyrirsjáanleg eru stóraukin útgjöld.

Það leiðir mig aftur, hæstv. forseti, að upphafi ræðu minnar. Til að standa undir greiðslum úr almannatryggingum til bæði þeirra sem eru aldraðir og þeirra sem búa við skerta starfsorku og jafnframt til að tryggja þá heilbrigðisþjónustu sem við viljum búa við, sem við viljum að sé í flokki þess besta sem gerist, þurfum við að tryggja að verðmætasköpun í samfélaginu aukist. Við þurfum að tryggja að atvinnulífið blómgist, útflutningstekjur aukist, hagkerfið gangi hraðar og að þar verði meiri vöxtur en verið hefur á undanförnum árum.

Þetta nefni ég, hæstv. forseti, vegna þess að stundum er í opinberri umræðu gert lítið úr hagvexti. Þau sjónarmið hafa heyrst að hagvöxtur sé stórlega ofmetinn þáttur en það er einmitt til þess að við getum haldið uppi lífskjörum sem sómi er að, bæði fyrir þá sem eru á vinnumarkaði og fyrir þá sem eru utan vinnumarkaðar af einhverjum sökum, og til þess að við getum haldið uppi þeirri þjónustu á sviði velferðarmála, almannatryggingamála, heilbrigðismála, menntamála og annarra þeirra sviða þar sem sameiginlegur kostnaður fellur til, til þess að bæta okkur á þessum sviðum, sem við þurfum að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Þar er ljóst að stefnubreytingar er þörf.

Þau jákvæðu markmið sem sett eru fram í þessu frumvarpi og mörgum öðrum málum sem ríkisstjórnin leggur fram nást ekki nema veruleg breyting verði á stjórnarstefnu að því leyti sem snýr að uppbyggingu atvinnulífs og verðmætasköpun í þjóðfélaginu.