141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur málið haft þann undirbúning og þá forsögu að bæði hafa verið starfandi verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga, sem skipuð var árið 2007, og starfshópur sem hefur starfað frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér og í þeim hópi sátu fulltrúar allra flokka ásamt fleirum. Niðurstaðan var að leggja fram breytingar á almannatryggingakerfinu.

Það má segja að í stað heildarlagabálks um almannatryggingar hafi orðið til það umhverfi hér að sérlög voru sett um einstaka þætti almannatrygginga. Í gildi eru lög um atvinnuleysistryggingar, lög um fæðingar- og foreldraorlof, lög um greiðslur til foreldra langveikra barna, fatlaðra barna og lög um sjúkratryggingar. Þetta eru fjölmargir lagabálkar. Með þessu máli er verið að leggja til að sérstök lög verði sett um lífeyrisréttindi almannatrygginga og að sá kafli gildandi almannatryggingalaga sem fjalli um slysatryggingar verði í sérstökum lögum sem eru víst á dagskrá á eftir þessu máli.

Hér er sem sagt verið að leggja til einföldun á lagaumhverfinu og er það vel. Eins og við vitum hefur umboðsmaður Alþingis meðal annarra gert þær athugasemdir við lagaumhverfi okkar að vegna misjafnrar heilsufarslegrar og félagslegrar stöðu lífeyrisþega sé sérstaklega brýnt að ákvæði laga um réttindi þeirra séu skýr. Þá hefur umboðsmaður jafnframt bent á að það sé skylda löggjafans að sjá til þess að fyrir hendi séu almennar, aðgengilegar og skýrar reglur um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingar eiga rétt á vegna elli eða annarra atriða, hvort sem sú aðstoð er í formi þjónustu, umönnunar eða fjárframlaga. Það er göfugt og gott markmið að stefna að því að kerfi okkar verði einfalt og gegnsætt þannig að þeir sem þurfa að leita þangað og njóta þjónustunnar skilji og geti auðveldlega aflað sér upplýsinga um hvaða réttindi þeir eiga.

Þegar maður skoðar hins vegar nákvæmlega hvað felst í því máli sem hér er lagt fram er auðvitað gott að sett eru markviss markmiðsákvæði í lögin, reynt er að afmarka gildissvið lífeyristrygginga og helstu hugtök eru skilgreind sem er svo sem hefðbundin og ágæt nálgun á stórum lagabálki.

Í II. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir framsetningu varðandi réttindi aldraðra til greiðslna og skilyrði fyrir greiðslum. Í rauninni er um að ræða gjörbreytta framsetningu. Fram kemur sú einföldun að með því að lesa II. kafla geti menn fengið yfirsýn yfir öll helstu réttindi og greiðslur til aldraðra. Þarna er verið að reyna að gera þetta það skýrt að á einfaldan hátt sé hægt að afla sér upplýsinga. Í þessum kafla er jafnframt lögð til mikil einföldun bótakerfisins þar sem er verið að sameina bótaflokka og afnema frítekjumörk. Þetta er gott. Þarna er verið að leitast við að ná þeim markmiðum sem sett voru fram við upphaf vinnunnar, þ.e. að einfalda umhverfið.

Í III. kafla er síðan umfjöllun um greiðslur vegna skertrar starfsgetu. Þar er verið að ræða um að hverfa frá því að meta örorku, þ.e. að meta hvað fólk getur ekki, og meta heldur hvað fólk getur. Hins vegar er útfærslan ekki kláruð og er því ekki búið að klára þetta mál. Í þessu frumvarpi er því lagt upp með að þessi kafli verði endurskrifaður og komi seinna. Það er ljóst að heilmikil vinna er eftir til að ná þeim markmiðum sem lagt var af stað með þegar verkefnisstjórnin var skipuð og síðar starfshópurinn. Ég hef lýst því yfir að ég er fylgjandi því að við förum frekar yfir í það að fjalla um og skilgreina hvað fólk getur en að skilgreina hvað fólk getur ekki, (Forseti hringir.) en ég hefði viljað sjá nánari útfærslu og að vinnan með þau ákvæði sem (Forseti hringir.) fram koma í III. kafla væru lengra á veg komin.