141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þetta fjallar allt um forgangsröðun í ríkisfjármálunum. Sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa haft orð á því að þeim finnist umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins vera dálítið hörð í mörgum frumvörpum sem þeir leggja fram. Þegar maður leggur það saman fær maður hálfgerðan hroll vegna upphæðanna þar, ekki vegna efnis frumvarpanna. Hér er mælt fyrir mörgum góðum málum eins og þessu hér. En bent hefur verið á að ákveðin ríkisfjármálastefna er rekin af hálfu núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Það er mjög skýrt, gefin er sérbók út um það og auðvitað er bent á það í umsögnum fjárlagaskrifstofunnar að mörg frumvörp og kostnaðurinn af þeim, t.d. af þessu og fleirum, rúmast ekki innan stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Bent er á hið augljósa: Ef ríkissjóður á að verða sjálfbær og ekki stefna í algjörar ógöngur verða menn að forgangsraða ef þeir vilja auka útgjöld, það gefur augaleið.

Á meðan menn auka ekki atvinnusköpun er ekki hægt að auka útgjöld. Ekki er hægt að segja annað en að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið í vegi fyrir nánast allri atvinnusköpun og verið í stríði við alla undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, alveg sama hvar; í sjávarútvegi, stóriðju, ferðaþjónustu og öllu, alls staðar stríð við atvinnuuppbyggingu þannig að það kemur niður á því að menn geta ekki búið til svigrúm og í raun og veru fengið einhverja atvinnusköpun til þess að standa undir kostnaði við velferðarkerfið.

Þess vegna held ég að það sé mikilvægast að menn staldri við vegna stöðu ríkissjóðs sem skuldar með skuldbindingum yfir 2 þúsund milljarða króna, við erum að greiða á þessu ári tæpa 90 milljarða bara í vexti, sem hægt er að reka Landspítalann fyrir í rúm tvö ár. Á næstu fjórum árum á að greiða 400 milljarða í vexti af skuldum ríkissjóðs og við erum að gera það í skjóli gjaldeyrishafta þannig að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að fara í forgangsröðun í ríkisfjármálum.