141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Við erum sammála, ég og hv. þingmaður, um forsendur þess að við getum staðið undir þeim góðu markmiðum og umbótum sem er að finna í frumvarpinu. Þótt ég hafi áður nefnt að það kunni að vera að ganga megi lengra í þeim efnum á sumum sviðum held ég að frumvarpið stefni á margan hátt til betri vegar. Við erum sammála um að forsendur þess að slíkur árangur náist sé að verðmætasköpun í samfélaginu aukist svo hægt sé að standa undir honum.

Ég velti fyrir mér hver afstaða hv. þingmanns er til þeirrar hugmyndar sem hefur verið nefnd oftar en einu sinni í umræðunni, um breytingar sem varða hugsanleg starfslok, lengri starfstíma, hækkun eftirlaunaaldurs, sveigjanleg starfslok og slíkt sem með vissum hætti getur komið okkur til góða þegar við veltum fyrir okkur hvernig við eigum að standa undir kostnaði sem hlýst af fjölgun í eldri árgöngum þegar horft er til næstu ára. Við sjáum fram á mikla fjölgun, stærri árgangar eru að komast á eftirlaunaaldurinn eins og hann er í dag. Ef að líkum lætur mun á 15 árum sá fjöldi tvöfaldast sem verður á þeim eftirlaunaaldri sem við horfum á í dag.

Ég velti fyrir mér hver afstaða hv. þingmanns er til þess að hugsanlega hækka eftirlaunaaldurinn eða a.m.k. búa til kerfi fyrir fólk svo það geti unnið lengur, enda liggur auðvitað fyrir að sjötugt fólk er almennt við miklu betri heilsu í dag en jafnaldrar þess voru fyrir 20–40 árum.