141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér var tíðrætt áðan um þá atburði sem áttu sér stað í tíð núverandi forsætisráðherra þann 1. júlí 2009 þegar ákveðið var að skerða bætur ellilífeyrisþega og öryrkja. Það er líklega eina kosningaloforðið sem Vinstri grænir hafa staðið við en þeir lofuðu fyrir kosningar að hér yrðu skattahækkanir og niðurskurður. Það hefur svo sannarlega verið staðið við það kosningaloforð.

Það sem vinstri menn átta sig ekki á er að þegar farið var af stað með þá aðgerð minnkuðu að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur þeirra hópa. Vinstri menn skilja ekki þá hugsun að þegar fólk hefur meira á milli handanna er ríkissjóður sjálfkrafa að skapa sér tekjur þar sem fjármagnið skilar sér aftur í umferð í auknum skatttekjum ríkisins vegna þess að fólk eyðir meira. Það er raunverulega eyðsluhvetjandi að hafa lægri skatta. Eldri borgarar reiknuðu það út á sínum tíma, með þær staðreyndir í huga hversu mjög hefur dregið úr kaupmætti og hversu mikil skattarýrnun varð í kjölfarið hjá ríkissjóði, og tölurnar voru ansi háar. Það er akkúrat sjónarmiðið sem við verðum að hafa í huga.

Það er merkilegt að í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu kemur sú staðreynd fram á bls. 97 varðandi leiðina sem hefur orðið fyrir valinu og skuldbindur ríkissjóð fram í tímann að unnt væri að ná fram þeirri einföldun á lífeyrissjóðakerfinu sem lýst er í frumvarpinu án þess að auka útgjöld þess með því að hafa tekjutengingarprósentuna hærri og beina þannig bótagreiðslum í minna mæli til þeirra sem síður þurfa á þeim að halda. En hvaða leið er valin með frumvarpinu? Sú leið vinstri manna að gera raunverulega alla háða kerfinu, hugsa ekki um hag fjöldans og að beina því til þeirra sem frekast þurfa á því að halda, þá væri hægt að hafa tekjuskattsprósentuna hærri.

Ræðutíminn sem þingmenn hafa í 1. umr. er stuttur en ég verð að minnast á að í greinargerð starfshópsins sem vann tillögurnar að breyttu kerfi almannatrygginga kemur fram það sjónarmið að stjórnvöld hafa á undanförnum missirum gefið fyrirheit um aukin framlög til þessa málaflokks til viðbótar við fyrrgreint samkomulag um hækkun frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega. Það sem starfshópurinn telur stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um er til dæmis að bráðabirgðaákvæði í núgildandi almannatryggingalögum um hækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 38,35% í 45% falli úr gildi um næstu áramót.

Hér segir að rétt sé að taka fram varðandi síðasta atriðið að það var ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma á jöfnuði í ríkisfjármálum í kjölfar efnahagsáfalla. Í ríkisfjármálaáætluninni hefur ávallt verið gert ráð fyrir að það ákvæði verði framlengt, enda hefur ekkert svigrúm verið til að afturkalla slíkar aðhaldsráðstafanir þar sem það hefði í för með sér aukningu á útgjöldum ríkissjóðs sem ekki hefur verið fjármögnuð. Þrátt fyrir góð markmið þegar farið var af stað með lagasetningu um skerðingu bóta til ellilífeyrisþega og öryrkja 1. júlí 2009, loforð um að það yrði fellt úr gildi á þessu kjörtímabili og svo seinna að það yrði dregið til baka hafa stjórnvöld engin áform um að standa við það.

Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu, og eru alvarleg tíðindi, að það hafi verið farið fram með lagasetninguna með skerðingarákvæðinu og ætlunin hafi verið að hafa það til framtíðar. Það er mjög alvarlegt.

Svo er kvartað yfir því að ekki hafi verið unnt að bæta úr því á þessu kjörtímabili en í ljós hefur komið að flutningsmenn frumvarpsins hafa ætíð ætlað sér að ná (Forseti hringir.) inn tekjunum, hafa ætíð ætlað sér að ná þeim loforðum inn á næsta kjörtímabili. Þetta er (Forseti hringir.) enn eitt frumvarpið sem skuldbindur stjórnvöld á næsta kjörtímabili.