141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[18:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir ræðuna.

Þegar fólk lendir í slysi er það ýmist slysatryggt samkvæmt almannatryggingum eða samkvæmt skaðabótalögum, þar geta menn líka verið slysatryggðir. Hér er talað um að menn fái greitt annaðhvort í mánaðarlegum slysalífeyri eða örorkulífeyri, eða örorkubætur í einu lagi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hve mikið er um það að verið sé að greiða örorkulífeyri í einu lagi? Hefur hann heyrt af því að slysabætur samkvæmt skaðabótalögum geti numið fleiri tugum milljóna? Sem veldur því oft að menn eignast marga vini sem hjálpa þeim við að eyða fjársjóðnum.

Ég hef oft og tíðum talað við fólk, öryrkja, sem hefur fengið miklar bætur einhvern tíma, miklar upphæðir, en þeir fjármunir hafi gengið mjög fljótt til þurrðar. Sá lífeyrir sem var ætlað að greiða með þeim bótum, sem voru eingreiðslur, var þá ekki lengur til staðar. Menn fengu ekki bætur annars staðar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað af þessu er í frumvarpinu og hvort menn hafi hugað að því að taka á því vandamáli?