141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar, hv. velferðarnefnd, skoði málið í heild sinni vegna þess að allt tengist þetta örorku og örorkulífeyri og örorkulífeyrisþegum. Eingreiðslur geta oft verið ekki bara kvöð, heldur getur fjármagnið rýrnað, hinum tryggða eða örorkulífeyrisþeganum er falin ávöxtun fjárins og það er ekki víst að hann sé bestur til þess fallinn. Fyrir utan það að í örorkumatinu er alltaf ákveðin áhætta. Menn geta tapað tekjum meira en gert var ráð fyrir, eða minna, og það getur verið að fjárhæðin dugi ekki fyrir því tekjutapi sem orðið getur. Það er meira að segja oft þannig að örorkan er metin á líkum, þ.e. að ákveðnar líkur séu á að maðurinn haldi fullum tekjum og ákveðnar líkur á að hann tapi fullum tekjum og svo reynist eitthvað annað og þá er áhættan alltaf hjá hinum tryggða.

Ég held að menn þurfi að skoða þetta allt í heild sinni og fara að taka upp örorkugreiðslusjóð sem greiðir út til dæmis bætur samkvæmt skaðabótalögunum þannig að menn fái bætur eftir því sem þörf er fyrir, eftir því sem áhættan kemur upp. Þetta tengist því vegna þess að slysatryggingar almannatrygginga eru einmitt til þess að dekka ákveðna atvinnustarfsemi, eins og sjómennsku og annað slíkt, undanskilja eða taka það frá skaðabótalögunum. Ég vil að hv. nefnd skoði þetta heildstætt.