141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í 9. gr., af því að ég veit að þingmaðurinn er mjög kunnugur þessum málum. Í skýringum stendur, og það kemur vitanlega fram í 9. gr. líka, með leyfi forseta:

„Lögð er til ný málsgrein, 4. mgr., þar sem kveðið verði á um að sjúkrahjálp greiðist ekki vegna kostnaðar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysdegi.“

Svo kemur lengri skýring á þessu öllu saman. Þetta er breyting frá því sem verið hefur. Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi einhverja sýn á það hvaða áhrif þessi breyting getur haft, ef áhrifin eru yfirleitt einhver.

Í skýringunum kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Talið er nauðsynlegt að setja tímamörk á greiðslu þessa kostnaðar sem nú er greiddur ótímabundið, óháð því hversu langt er liðið frá slysi enda erfitt að staðreyna orsakasamband milli slyss og kostnaðar þegar langt er um liðið frá slysi.“

Ég er að velta fyrir mér hvort þetta eigi eingöngu við í þeim tilfellum þegar eitthvert tjón kemur í ljós eftir fimm ár eða hvort átt er við að kostnaður sé greiddur eða tekið þátt í kostnaði í fimm ár en ekki lengur. Hvernig skilur hv. þingmaður þetta? Ég velti fyrir mér hvaða áhrif þessi breyting hefur í dag. Það er vitanlega miklu lengri skýring á þessu hér en ég staldraði aðeins við þessa málsgrein í 9. gr.