141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð spurning en hún snýr að svokölluðum „Karenz-tíma“ eða biðtíma, þeim tíma sem menn hafa til þess að fullnægja ákveðinni tryggingu. Nú er það þannig að örorka er yfirleitt talin koma fram á innan við fimm árum en auðvitað eru miklar undantekningar á því. Menn geta verið miklu lengur að festast, ef svo má segja, í þeirri örorku sem ákveðið slys eða atburður veldur. Það getur tekið jafnvel tíu ár þangað til kemur í ljós hver hin raunverulega örorka er. Ég geri ráð fyrir að þarna séu menn að setja ákveðnar skorður varðandi tímann vegna þess að erfitt geti verið að meta hvort viðkomandi þjónusta eða læknishjálp eða annað slíkt sé háð þeim atburði sem varð fyrir fimm árum og olli örorkunni eða hvort eitthvert nýtt tjón eða nýr atburður valdi því að þessa þjónustu þarf. Þetta er náttúrlega eitthvað sem menn þurfa að skoða vandlega.

Ég minni á að í almannatryggingum er ákveðinn biðtími. Þegar menn koma erlendis frá inn í kerfið verða að líða sex mánuðir áður en menn geta fengið bætur úr almannatryggingum. Það er mismunandi hvað biðtími er langur áður en menn öðlast rétt í ákveðnu kerfi.