141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:27]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem snýr að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í svona tilvikum er fyrst og fremst það að undir það ráðuneyti heyra lög um ívilnanasamninga og það er af þeim ástæðum sem ég flyt þessi mál hér af því að sameinaðir voru í einum pakka hlutir sem eðli málsins samkvæmt liggja hjá öðrum ráðuneytum út af fyrir sig, eins og hreinar lánveitingar úr ríkissjóði eða annað slíkt, sem er að sjálfsögðu viðfangsefni fjármálaráðuneytisins. Þess vegna varð það niðurstaðan þar sem beiðni forsvarsmanna Reykjanesbæjar, í þessu tilviki, tengdist ekki óskum um að gera nýjan fjárfestingarsamning eða annað slíkt, að eðlilegast væri að fjármálaráðuneytið færi með forsvar í slíkum viðræðum. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að lofa niðurstöðunni úr því fyrir fram fyrir hönd fjármálaráðuneytisins en veit ekki betur en að það fari fram í góðri trú beggja aðila. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggja stein í götu þess að staðið verði að málum við sambærilegar aðstæður með einhverjum sambærilegum hætti, en sá þáttur málsins er í raun og veru ekki á okkar könnu. (Forseti hringir.) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, áður iðnaðarráðuneytið, hefur gert allmarga fjárfestingarsamninga vegna áforma um uppbyggingu á Suðurnesjum. Sumt hefur orðið að veruleika, annað ekki, a.m.k. enn sem komið er. Þannig stendur það.