141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:35]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki mikið annað gert en að endurtaka fyrra svar mitt. Ef upp kemur í tengslum við áform sem eru að verða að veruleika þörf fyrir aðkomu ríkisvaldsins að einhverjum innviðafjárfestingum er að sjálfsögðu rétt og skylt að fara yfir það. Fordæmin eru frá fyrri verkefnum af þessu tagi, allt frá Straumsvík á sínum tíma, Grundartanga og síðan Reyðaráli. Að vísu var þar dálítið öðru til að dreifa því að þá voru sett sérlög. Það voru engin rammalög í gildi og þá var auðvitað gengið miklu lengra því að þá voru ívilnanir veittar í sumum tilvikum til allt að 40 ára. Hér erum við eingöngu að tala um stuðning á upphafstímabilinu, fyrsta tíu ára tímabilinu, og þá nauðsynlegu fjárfestingu í innviðum, samgöngumannvirkjum og hafnargerð sem þarf til þess að svæðið sem slíkt opnist upp og sé nothæft.

Almennt er það ríkið sem stendur straum af uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það má deila um hvort yfir höfuð eigi að blanda því inn í þetta mál. (Forseti hringir.) Hafnarframkvæmdir eru hins vegar á vegum sveitarfélaganna og þar hefur ríkið á fyrri tíð komið að verkefnum eins og fordæmi eru fyrir um, (Forseti hringir.) en það hefur þá verið á grundvelli einhverra samninga sem fyrir lágu um þátttöku í þeim.