141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:38]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ef ég byrja fyrst á hinu seinna held ég að ég fari rétt með það að í tilviki Grundartanga hafi ríkið aðstoðað við undirbúning lóða. Það kann að hafa verið í formi víkjandi láns sem var veitt til að standa straum af hluta af lóðarframkvæmdunum og ég þykist muna að í því tilviki hafi þátttaka á lóðarsvæðinu komið til sögunnar.

Varðandi tryggingagjaldið hefur verið farið yfir það. Eins og ég segi er hér veittur afsláttur af hinu almenna tryggingagjaldi, þ.e. í raun hinum ómerkta tekjuhluta ríkisins í tryggingagjaldinu sem að uppistöðu til fer í að mæta einhverjum hluta af kostnaði ríkisins vegna almannatrygginga. Mér skilst að í framkvæmd sé þetta þannig hugsað að félagið greiði tryggingagjaldið en fái síðan í tengslum við skattalegt uppgjör sitt endurgreiddan afsláttinn af hinu almenna tryggingagjaldi. Þar af leiðandi hefur þetta engin áhrif gagnvart starfsmönnum og það á ekki að vera mjög flókið í sjálfu sér að framkvæma þennan endurreikning og endurgreiðslu eða afslátt á móti öðrum sköttum þegar skattskil fyrirtækisins liggja fyrir árlega. Eftir því sem okkar sérfræðingar segja (Forseti hringir.) á þetta ekki að valda vandræðum.