141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi breyting er til eins árs vegna þess að þetta regluverk sætir endurskoðun. Það var einfaldlega metið að tiltekin rýmkun á afsláttum sem væru heimilir samkvæmt hinum almennu rammalögum væri eðlileg til að mæta því að heimildir til greiðslu beinna stofnstyrkja hyrfu út úr lögunum.

Í mörgum tilvikum er verið að keppa við lönd sem bjóða allt að 25% í beina styrki til stofnkostnaðaruppbygginga í fjárfestingarverkefnum af þessu tagi. Það gera mörg lönd Austur-Evrópu og það gerir Noregur. Á vissum svæðum Noregs er um mjög háa styrki að ræða þar sem ríkið eða sveitarfélög og ríki greiða peninga beint inn í uppbygginguna. Það er ekki gert hér en í staðinn er ramminn færður nokkuð út til að heimila ívilnanir á fyrstu tíu árum starfseminnar. Þessi lög munu síðan sæta endurskoðun á síðari hluta ársins í tengslum við endurskoðun Evrópusambandsins sjálfs á bæði sínu ríkisstyrkjaregluverki og byggðakortinu sem kemur einnig við sögu í þessum efnum.