141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að fagna því að loksins skuli hafa orðið af langþráðri atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík, að minnsta kosti stefnir í það. Fram að þessu hefur töluvert mikið vantað upp á það, skulum við segja, svo að við tökum vægt til orða, að stjórnvöld hafi gert það sem eðlilegt og æskilegt hefði verið til að ýta undir atvinnuuppbyggingu á svæðinu og hafa ýmis tækifæri farið forgörðum í þeim efnum. En ég ætla ekki að eyða tímanum í að rekja þá sögu alla heldur fyrst og fremst að fagna því að nú skuli loksins stefna í að breyting verði þar á og jafnframt fagna þeirri viðurkenningu sem í þessu felst á gildi uppbyggingar á sviði iðnaðar á Íslandi. Umræða um iðnað og fjölgun starfa í þeirri grein hefur verið furðu neikvæð um nokkurra ára skeið úr ýmsum áttum. Með þeim málum sem við ræðum hér er að eiga sér stað algjör viðsnúningur hvað það varðar.

Jafnframt felst í þessu viðurkenning á því að það sé ásættanlegt og æskilegt að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega til að koma á verkefnum sem skapa störf. Þetta er annað atriði sem hefur verið umdeilt lengi og menn hafa reyndar deilt um á ýmsum forsendum. En flestar þær forsendur eða flest þau rök sem notuð hafa verið til að andmæla aðkomu ríkisins að því að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu eru í raun fallin með þessu máli. Það er fagnaðarefni líka.

Sérstaklega á þetta við um það hlutverk ríkisvaldsins að skapa eðlilega innviði, nauðsynlegar forsendur, til þess að atvinnuuppbygging geti átt sér stað. En hér er líka um það að ræða að menn fallist á þau rök að það geti þurft að skapa jákvæða hvata, meðal annars með skattalækkunum eða eftirgjöf skatta, til þess að koma fjárfestingarverkefnum af stað. Það er löngu tímabært fordæmi.

Við höfum reyndar séð önnur dæmi um slíkt, t.d. í átakinu sem kallað var Allir vinna og fólst í endurgreiðslu virðisaukaskatts einkum og sér í lagi vegna viðhaldsverkefna og var að mati ríkisstjórnarinnar til þess fallið að auka tekjur ríkisins og fjölga störfum, þ.e. skattalækkunin eða skattaeftirgjöfin var á endanum hagkvæm og jákvæð fyrir ríkið. Það sama á við þegar kemur að því að skapa verðmæt störf og auka útflutning, þá getur verið réttlætanlegt að ríkið ráðist í sértækar aðgerðir til að skapa nauðsynlega hvata.

Það er því margt mjög jákvætt við þetta verkefni, en fyrst og fremst er það fagnaðarefni að nú stefnir í að viðsnúningur verði í þeirri þróun sem verið hefur ríkjandi allt of lengi í Þingeyjarsýslum, þ.e. að fólk flytjist þaðan í burtu og störfum fækki. Nú stefnir í að störfum fjölgi og vonandi mun það leiða til fjölgunar íbúa, ekki bara á næstu árum heldur til langrar framtíðar og áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á svæðinu.