141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta afar jákvæða mál eða þau frumvörp sem hér eru. Ég vil fagna því alveg sérstaklega að þau skuli vera komin fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þau hér. Þetta er annars vegar frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka og hins vegar um að fjármagna uppbyggingu innviða vegna þeirrar atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.

Það er sérstakt ánægjuefni að brátt sjái fyrir endann á samningum við fyrirtækið PCC um byggingu kísilvers á Íslandi sem staðsett verður fyrir norðan, enda telur Landsvirkjun þetta svæðið sem virkjað verður á næstunni og er fjárfestum bent á það. Þegar þeir koma til að fá orku hjá Landsvirkjun er bent á orkusvæðið á Norðausturlandi sem er að mestu leyti óvirkjað og er mikil auðlind sem þar er. Við vitum ekki nákvæmlega hve mikil orka verður virkjuð þar en mikið er af henni. Verður það notað á jákvæðan hátt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu, á Norðausturlandi, til að styrkja innviði þar og sveitarfélögin og byggð á þessu svæði, sem er afar jákvætt.

Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið, hún hefur verið á mjög jákvæðum nótum. Það má hiklaust segja að hér hafi komið fram mjög víðtæk samstaða um þetta verkefni frá fulltrúum allra þeirra flokka sem hér hafa talað. (Gripið fram í: … og önnur verkefni líka.) Það er mikið fagnaðarefni.

Það er ánægjulegt að vera kominn aftur til þings þegar þetta mál er flutt. Ég tek eftir því að frá því hæstv. ráðherra flutti málið hér í kvöld hafa mjög margir fulltrúar í atvinnuveganefnd setið hér og hlustað á þessa umræðu, enda er það nauðsynlegt. Þannig vinnum við líka tíma vegna þess að ekki er langur tími eftir af þinginu til að vinna og klára þetta mál í nefndinni. Fyrir það vil ég líka þakka, það er ákaflega mikilvægt þegar menn reifa málin við 1. umr. Fram hafa komið nokkur atriði fram sem ég hef punktað hjá mér sem full ástæða er til að nefndin taki til athugunar og skoðunar nú næstu daga þegar við förum að vinna þetta mál.

Hér eru sem sagt, eins og komið hefur fram, mjög jákvæð frumvörp á ferð með jákvæðar framkvæmdir sem kallað hefur verið eftir allt frá hruni. Við vitum að erfiðleikar hafa verið út um alla Evrópu, það hefur ekki bara verið efnahagskrísa hér á Íslandi heldur út um alla Evrópu og það kann að kosta sitt. En hér erum við að fá erlenda fjárfestingu sem mikið hefur verið kallað eftir og þar að auki nýja atvinnustarfsemi, kísilver, sem mun hefja starfsemi á þessu svæði og vonandi er það bara það fyrsta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en kem hér aðallega til að fagna þessum frumvörpum og lýsa því yfir að við í atvinnuveganefnd munum reyna að vinna þetta eins fljótt og við getum en líka vel og markvisst. Það má óska Þingeyingum til hamingju með að þetta skuli þó vera komið svona langt. Vonandi löndum við þessu núna svo að það samfellda efnahags- og uppbyggingarskeið sem fram undan er á þessu svæði, á Norðausturlandi, hefjist á sumri komanda og standi í mörg ár ef ekki áratugi. Það er mjög jákvætt og ekki bara fyrir íbúa á þessu svæði heldur fyrir landið allt.