141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

afgreiðsla stjórnarskrármálsins.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í langan tíma, í nær fjögur ár, hefur verið reynt að koma fram breytingum á stjórnarskránni á hv. Alþingi. Stjórnarandstaðan, Sjálfstæðisflokkur ekki síst og Framsóknarflokkur, hefur gert sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að það mál nái (VigH: Þetta er rangt.) fram að ganga með ýmsum hætti, málþófi o.fl. Því til sönnunar vil ég segja að á þessu kjörtímabili hefur verið talað í 150–160 klukkustundir í stjórnarskrármálinu. Það segir sína sögu.

Ég hef stutt allar mögulegar færar leiðir til að stjórnarskrá byggð á grunni stjórnlagaráðs yrði að veruleika og næði fram að ganga í samræmi við þjóðarvilja. Ég tel að það sé og hefði verið bæði málefnalega og tæknilega hægt að klára málið ef minni hlutinn hefði ekki beitt þessu málþófsofbeldi sem hann hefur gert ítrekað í stjórnarskrármálinu. Málið hefur verið vel unnið og faglega og fengið mikla umfjöllun í nefnd og nú liggur fyrir heildstæð tillaga að stjórnarskrá frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem á þakkir skildar fyrir það hve vel hún hefur staðið að þessu máli.

Þó er ljóst og það er mat formannanna að tímans vegna sé ekki hægt að ná fram heildstæðri stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Þeir hafa því lagt fram tillögu um að þannig verði staðið að verki að stjórnarskrármálið verði tekið upp á næsta kjörtímabili í heild sinni og unnið þar í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Úr því sem komið er styð ég þessar tilraunir formannanna en legg auðvitað áherslu á það, eins og minn formaður hefur gert, að við sameinumst um að reyna að ná í gegn auðlindaákvæðinu og ákvæði um beina lýðræðið áður en þingi verður slitið. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að (Forseti hringir.) þingmenn Framsóknarflokksins séu ekki tilbúnir í það. Það er í samræmi við málflutning þeirra og tillögur á landsfundi.