141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

afgreiðsla stjórnarskrármálsins.

[10:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þeir þrír sem mynda minni hlutann í níu manna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa afskaplega litlu ráðið um það á hvaða hraða og með hvaða verklagi þetta mál hefur verið unnið síðustu missirin. Dagsetningar eins og þingfrestunardagsetning og kosningadagsetning hafa legið fyrir alllengi þannig að ef hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af því að málið hafi komið seint inn í þingið til afgreiðslu og annað þarf að ræða við einhverja aðra en okkur sem sitjum í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Varðandi efnisatriði málsins er það jafnumdeilt og áður og ástæðulaust að þrefa um það. Hins vegar veiti ég því athygli að hæstv. forsætisráðherra nefnir hér tvö ákvæði til viðbótar við þau sem getið er um í fyrirliggjandi þingmálum. Formenn ríkisstjórnarflokkanna lögðu fram frumvarp um breytingu á einni tiltekinni grein stjórnarskrárinnar, breytingarákvæðinu sjálfu, en minntust í því sambandi ekkert á þau ákvæði sem hæstv. forsætisráðherra nefndi í ræðu sinni.