141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

uppgjör þrotabúa gömlu bankanna.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Allir mínir ráðherrar hafa í þau rúmlega fjögur ár sem við höfum setið staðið með hagsmunum þjóðarinnar og gætt þeirra hagsmuna eins og best verður á kosið. Á því verður engin breyting.

Varðandi það tiltekna mál sem hv. þingmaður nefnir hefur ríkisstjórnin, undir forustu fjármálaráðherra, lagt sig mjög fram um að hafa alla aðila upplýsta, líka stjórnarandstöðuna. Sérstök stýrinefnd fjallar um höftin sem eru líka nátengd nauðasamningum og hvernig með þá verður farið og reyndar fleiri mál þannig að við þurfum að hafa undir heildarmyndina af þessu. Sérstök stýrinefnd undir forustu fjármálaráðherra ræðir það mál reglulega og í þeirri nefnd á líka sæti atvinnuvegaráðherra og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn þannig að það er alveg fullt kontról á þessu máli. Það verður ekki farið út í neinar aðgerðir sem varða uppgjör á bönkunum eða höftunum nema það sé fulltryggt að mati allra aðila að fjármálastöðugleiki í landinu verði tryggður. Fjármálaráðherra hefur gert sér far um að hafa samráð og samband við formenn flokkanna, bæði um höftin og meðferð þeirra og eins um uppgjör á nauðasamningum. Ég á ekki von á öðru en að það verði áfram fullkomin samvinna við stjórnarandstöðuna í þessu stóra máli. Það er eðlilegt að það sé samvinna allra aðila um það hvernig hagsmuna þjóðarinnar verði best gætt.