141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

frumvarp um staðgöngumæðrun.

[10:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki nákvæmlega með stöðuna á þessu máli í dag. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að um þetta var skipaður starfshópur undir forustu Kristrúnar Heimisdóttur sem hefur verið að vinna að þessu máli með hagsmunaaðilum, þ.e. þeim sem voru valdir í góðu samráði við þá sem unnu þessa þingsályktunartillögu á sínum tíma. Þetta hefur tekið mun lengri tíma en við reiknuðum með og ég sé ekki fram á að lagt verði fram frumvarp á þeim dögum sem eftir eru af þessu þingi en bind vonir við að það komi þá inn á netið hjá velferðarráðuneytinu ef við náum því fyrir kosningar sem ég er heldur ekki viss um. Ég treysti á að þessari vinnu verði haldið áfram í samræmi við þá samþykkt sem Alþingi gerði og reynt að ljúka þessu máli.

Ég tel að vanda þurfi mjög vel til verka. Við höfum óskað eftir því á allan hátt. Leitað var til sérfræðinga í sambandi við þessa vinnu. Það hefur engin fyrirstaða eða tafir verið á þessu máli þótt ég hafi ekki sérstaklega verið að reka á eftir því akkúrat þessa síðustu daga.