141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

Evrópustofa.

[10:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég sé ekki neitt ósamræmi þarna á milli. Evrópustofa starfar, eins og aðrar stofnanir sem tengjast sendiráðum af þessum toga, innan vébanda Vínarsamningsins alveg eins og önnur ríki ráku á sínum tíma svipaðar kynningarstofnanir og gera vísast einhverjar enn þá innan ramma þess samnings. Ég held að Evrópustofa hafi staðið sig ákaflega vel við að svara fyrirspurnum, koma á fundi þar sem óskað hefur verið eftir því að hún kynni það málefni sem hún á að gera og hafi gert það með ákaflega hlutlægum hætti og viðurkenndum eins og sést á því að vítt um land hafa borist æ fleiri óskir um það frá íbúum landsins að frá henni komi fulltrúar til að svara og kynna tiltekna hluti.

Ég tel þetta mjög jákvætt og tel það öllum til vansa sem hafa verið að setja í hana króka sína eins og ýmsir stjórnmálaflokkar hafa verið að gera. Ég tel ekkert að því að stofnun af þessu tagi sé starfrækt á Íslandi.